KR mætti í Síkið á Króknum í kvöld undir stjórn Páls Kolbeinsson sem bæði lék og stjórnaði Tindastóli á árum áður. KR virtist ætla að landa auðveldum sigri eftir 1. leikhluta en þeir leiddu þá með 16 stigum. Þá breyttu Stólarnir um vörn og söxuðu muninn jafnt og þétt niður og úr varð ágætis spennuleikur.
Liðin sem byrjuðu inná voru þannig skipuð: Axel, Friðrik, Svavar, Helgi Rafn og Michael hjá Tindastóli og Brynjar, Fannar, Semaj, Finnur og Tommy hjá KR. KR vann uppkastið og eftir eina misheppnaða sókn hjá hvoru liði skoraði Brynjar fyrstu körfu kvöldsins fyrir KR. Þeir leiddu fyrstu mínúturnar og um miðjan leikhlutann náðu þeir 8 stiga forskoti og Kalli tók leikhlé fyrir heimamenn. Staðan 9 – 17. Eftir leikhléið skoraði Rikki þriggja stiga körfu og næstu tvær mínútur var jafnræði með liðunum, en í stöðunni 16 – 22 kom slæmur kafli heimamanna. KR skoraði 11 – 0 og komst í 17 stiga forskot, en Stólarnir löguðu stöðuna um eitt stig áður en leikhlutanum lauk, 19 – 35. Brynjar og Fannar voru heimamönnum erfiðir það sem af var og Semaj átti góðan sprett þegar KR bjó til forskotið. Stólarnir virkuðu varkárnir í leik sínum og virtust ekki alveg tilbúnir í leikinn. Helst að Helgi Rafn væri vakandi en hann var kominn með 8 stig.
Í lok fyrsta leikhluta höfðu Stólarnir skipt í svæðisvörn og héldu því áfram í 2. fjórðungi. Það hafði góð áhrif á leik þeirra og smátt og smátt náðu þeir að vinna aðeins á forskotinu. Það gekk þó hægt framan en uppúr miðjum leikhlutanum fór sóknin að virka líka og skotin fóru að detta. Axel opnaði leikhlutann með þristi, en KR-ingar héldu sínu forskoti áfram einnig með þristum. Staðan 33 – 47 þegar leikhlutinn var hálfnaður. Svavar hrökk þá í gírinn og setti niður 11 stig á fjórum mínútum, þar af eitt þriggja stiga skot þar sem brotið var á honum og setti hann niður vítið að auki. Síðustu körfu hálfleiksins átti Helgi Rafn en hann átti eftir að bæta verulega við þær í þeim síðari. Staðan í hálfleik 46 – 54 og þó KR væri enn með þægilegt forskot var augljóst að heimamenn ætluðu ekki að leggjast niður og láta keyra yfir sig eins og leit út í fyrsta leikhluta.
Það byrjaði þó ekki byrlega fyrir Stólana því fyrstu fimm stig síðari hálfleiks voru KR. En þá hófst endurkoman, en 19 – 5 sprettur Tindastóls næstu 3 þrjár mínútur breytti stöðunni í 65 – 64 og Tindastóll komið skyndilega yfir. Allt gekk upp í sókninni, þar af fjórar þriggja stiga körfur og Michael átti þá síðustu ásamt vítaskoti en brotið var á honum í skotinu. Páll þjálfari KR sjá að þetta gat ekki gengið og tók leikhlé. KR-ingar komu ákveðnir til baka úr hléinu og Semaj setti þrist og í kjölfarið kom sitt hvor karfan frá honum og Finni. Munurinn aftur orðinn sex stig og það leit svo út að áhlaupið frá Stólunum dygði ekki að þessu sinni. Þeir voru þó ekki á því að gefast upp og fór Helgi Rafn fyrir sínum mönnum, reif niður fráköst og setti allt niður í sókninni. Stólarnir hleyptu KR ekki fram úr og náðu að minnka muninn fyrir síðasta leikhlutann, en staðan 78 – 79 þegar einn leikhluti var eftir.
Tvö víti frá Helga Rafni komu Stólunum í annað sinn yfir í leiknum, en KR svaraði með 6 stigum. Munurinn 2 – 4 stig næstu mínúturnar. Þristur frá Michael setti bilið niður í eitt stig í stöðunni 96 – 97 og rúmar fjórar mínútur eftir. Þá hófst þáttur Tommy Johnson fyrir KR. Hann skoraði þrist, Helgi Rafn svaraði með tveggja stiga körfu og víti, en Tommy setti þá niður tvo þrista í röð og staðan orðin 99 – 106 og tæpar tvær mínútur eftir. Þrátt fyrir að Svavar svaraði með þristi og Darri Hilmarssn væri kominn út af fyrir KR með fimm villur, þá náðu heimamenn ekki að brúa bilið. KR landaði sjö stiga sigri með því að hitta úr sex vítum á lokamínútunni. Stólarnir börðust þó allt til loka og síðustu körfu leiksins átti Axel Kárason með þriggja stiga skoti. Lokatölur 107 – 114. Bæði lið voru með góða hittni í kvöld. Stólarnir með yfir 50% hittni bæði í tveggja og þriggja stiga skotum. Þó KR væri aðeins með 35% hittni í þriggja stiga voru þeir með 71% í tveggja stiga og sýnir það nokkuð vel hæðarmuninn á liðunum ásamt því að þeir tóku 38 fráköst á móti 21 hjá Tindastóli.
Tindastólsdrengir áttu skínandi leik í kvöld eftir slakar fyrstu tíu mínúturnar. Enginn þó eins og Helgi Rafn en hann skoraði 33 stig og tók 6 fráköst. Svavar var einnig mjög góður með 28 stig, en annars börðust Stólarnir allir sem einn í kvöld og eiga hrós skilið fyrir góðan leik. Þeir sýndu í kvöld hversu megnugir þeir eru og þrátt fyrir tap var margt jákvætt í leiknum.
Hjá KR var Semaj Inge öflugur með 30 stig og 11 fráköst, Brynjar var með 22 stig og var góður, sérstaklega í fyrri hálfleik. Fannar var sterkur að vanda, en maðurinn sem réði úrslitum í kvöld var Tommy Johnson. Eftir slakan leik lengstum steig hann upp síðustu mínúturnar og skoraði þá 13 af 18 stigum og tryggði KR sigurinn.
Stigaskor Tindastóls: Helgi Rafn 33, Svavar 28, Michael 14, Helgi Freyr 13, Axel 12, Friðrik 5 og Hreinn 2. (Það skal tekið fram að lokakarfan sem var þriggja stiga karfa frá Axeli var færð á Helga Rafn í tölfræðinni á netinu.)
KR megin skiptust stigin þannig: Semaj 30, Brynjar 22, Tommy 18, Fannar 15, Darri 10, Finnur 8, Jón Orri 6, Ólafur 3 og Skarphéðinn 2.
Dómarnir í kvöld voru þeir heiðursmenn Sigmundur Már Herbertsson og Björgvin Rúnarsson og var fátt út á þá að setja.
Texti: Jóhann S.



