NBA deildin rúllaði af stað í nótt með fjórum leikjum þar sem hæst bar sigur meistara LA Lakers á grönnum sínum í Clippers og sigur Boston Celtics á Cleveland Cavaliers.
Auk þess vann Washington góðan sigur á Dallas og Portland vann Houston.
LA Lakers – LA Clippers
Eftir að hafa fengið afhentan meistarahringinn og horft á 15. meistarafánann hífðan upp í rjáfur í Staples Center sneru Kobe Bryant og Lakers sér að því að sækja næsta titil og unnu Clippers, 99-92.
Kobe var með 33 stig í liði Lakers sem leiddi allan tímann, en bestu fréttirnar fyrir meistarana er sjálfsagt frammistaða miðherjans unga Andrew Bynum sem var með 26 stig og 13 fráköst. Lamar Odom var með 16 stig og 13 fráköst, en nýjasti meðlimur liðsins, Ron Artest var með 10 stig.
Hjá Clippers var Eric Gordon með 21 stig og Chris Kaman með 18 stig og 16 fráköst.
Cleveland – Boston
Fyrsti leikur Shaq með LeBron á heimavelli fór ekki eins og þeir hefðu viljað þar sem þrenning Boston Celtics var að leika vel og þeirra nýji liðsmaður, Rasheed Wallace var einnig að finna sig. Celtics stóðu af sér góða byrjun Cavs og tóku stjórnina í 2. leikhluta.
Paul Pierce var með 23 stig og 11 fráköst, Ray Allen með 16 stig, Kevin Garnett með 13 og Wallace 12.
Hjá Cleveland stóð LeBron James fyrir sínu með 38 stig, en Shaq var með 10 stig og 10 fráköst.
Önnur úrslit:
Dallas 91 – Washington 102
Portland 96 – Houston 87
Mynd/AP



