spot_img
HomeFréttirValskonur lönduðu spennusigri

Valskonur lönduðu spennusigri

 
Framlengja þurfti leik Vals og Njarðvíkur í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem Valskonur fögnuðu sigri 55-54 í varnarsinnuðum og spennandi leik. Njarðvíkingar léku án Ólafar Helgu Pálsdóttur í kvöld en telfdu fram Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur sem mun leika nokkra leiki í vetur í grænu en hún er búsett í Þýskalandi og þarf að koma á Klakann endrum og sinnum sökum náms.
 
Valskonur léku með sorgarbönd í kvöld til minningar um Gísla Þ. Sigurðsson sem lést mánudaginn 26. október síðastliðinn. Gísli starfaði um árabil sem umsjónarmaður mannvirkja á Hlíðarenda, auk þess að vera stjórnarmaður í knattspyrnudeild til margra ára, þ.á.m. formaður deildarinnar og fulltrúi félagsins í KRR.
 
Njarðvíkingar byrjuðu betur og komust í 2-8 en Valskonur létu ekki slá sig út af laginu og náðu að minnka muninn í 15-17 og þannig stóðu leikar að loknum fyrsta leikhluta. Valur átti í töluverðu basli með Shantrell Moss í Njarðvíkurliðinu í upphafi leiks en þeim tókst þó að hemja hana lítið eitt undir lok fyrsta leikhluta.
 
Þær Harpa Hallgrímsdóttir og Helga Jónasdóttir reyndust Valskonum erfiðar í teignum og fráköstuðu vel. Njarðvíkingar höfðu áfram yfirhöndina í leikhluta þar sem meira bar á varnarleiknum en sóknarleiknum. Valskonur gerðu aðeins fjögur stig í öðrum leikhluta og Njarðvíkingar gerðu aðeins 5 stig og því stóðu leikar 19-22 í hálfleik Njarðvík í vil.
 
Í þriðja leikhluta náðu heimakonur í Val að klóra sig upp að hlið gestanna en það var ekki fyrr en undir lok leikhlutans þegar Hanna Hálfdánardóttir jafnaði metin í 34-34 af vítalínunni.
 
Fjórði leikhluti var hnífjafn frá upphafi til enda. Njarðvíkingar áttu ávallt frumkvæðið en Valskonur gerðu vel allan leikhlutann að halda í við Njarðvík og jafna metin í fjölmörg skipti. Þegar stutt var eftir af fjórða leikhluta fékk Helga Jónasdóttir sína fimmtu villu í Njarðvíkurliðinu og fyrirséð að baráttan í teignum yrði ekki jafn einsleit og að Njarðvíkingar myndu verða í vandræðum með Hrund Jóhannsdóttur miðherja Vals.
 
Sakera Young reyndist síðan þrautgóð á raunastund í Valsliðinu þegar um 14 sekúndur voru til leiksloka. Young braust þá í gegn, skoraði úr stuttu skoti og fékk víti að auki sem hún setti niður og staðan jöfn, 45-45. Njarðvíkingar héldu svo í síðustu sóknina í venjulegum leiktíma þar sem Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir fékk síðasta skotið en það þriggja stiga skot geigaði og því varð að framlengja.
 
Liðin fóru sér hægt í framlengingunni en Sigurlaug Guðmundsdóttir setti niður góðan þrist fyrir Njarðvík og breytti stöðunni í 47-50 Njarðvík í vil. Valskonur jöfnuðu metin þegar rétt rúm mínúta var til leiksloka en Þórunn Bjarnadóttir kom Val í 52-50 þegar 12 sekúndur voru til leiksloka. Njarðvíkingar sundurspiluðu vörn Vals í næstu sókn og jöfnuðu metin í 52-52.
 
Valskonur voru ekki af baki dottnar heldur komust þær í 55-52 þegar 2,8 sekúndur voru til leiksloka með körfum frá Þórunni Bjarnadóttur og Sakeru Young. Njarðvíkingar tóku innkast en Young braut klaufalega á Shantrell í Njarðvíkurliðinu og uppskar óíþróttamannslega villu fyrir vikið.
 
Shantrell Moss setti niður bæði vítin og minnkaði muninn í 55-54 og Njarðvíkingar áttu innkast á miðlínunni þegar 2,8 sekúndur voru eftir. Moss fékk boltann og keyrði upp í hægra hornið og reyndi þriggja stiga skot sem geigaði og því fögnuðu Valskonur sigri. Njarðvíkingar fengu í tvígang tækifæri til þess að landa sigrinum en bæði þriggja stiga skotin fóru forgörðum hjá þeim.
 
Sakera Young var stigahæst í Valsliðinu með 18 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst. Næst henni var Þórunn Bjarnadóttir með 12 stig og 7 fráköst og þá barðist Hanna Hálfdánardóttir af krafti með 6 stig og 14 fráköst.
 
Í Njarðvíkurliðinu var Shantrell Moss með 25 stig, 6 stoðsendingar og 4 fráköst en Helga Jónasdóttir gerði 11 stig og tók 11 fráköst. Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir mun vafalítið reynast Njarðvík vel í þeim leikjum sem hún mun spila með grænum í vetur en hún fann ekki taktinn í kvöld og skoraði einungis 2 stig en tók 4 fráköst.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -