spot_img
HomeFréttirFSu fékk skell í Ásgarði

FSu fékk skell í Ásgarði

 
Subwaybikarmeistarar Stjörnunnar halda sigurgöngu sinni áfram en í kvöld tóku þeir á móti FSu í Ásgarði í Garðabæ. Lokatölur leiksins voru 95-70 Stjörnunni í vil sem eiga nú sína bestu byrjun í sögu deildarinnar en aldrei áður hafa þeir unnið fjóra fyrstu leiki sína. Justin Shouse var langbesti maður vallarins í kvöld með 26 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst. Stigahæstur í liði FSu var Cristhoper Caird með 21 stig og 9 fráköst.
Heimamenn í Stjörnunni hófu leikinn 14-0 og ljóst í hvað stefndi. Vörn FSu var í molum í upphafi leiks og skoraði Stjarnan grimmt úr hraðaupphlaupum. Cristopher Caird kom gestunum á blað og minnkaði muninn í 14-3 með þriggja stiga körfu en Stjörnumenn héldu áfram að valta yfir gesti sína og stóðu leikar 25-12 fyrir Stjörnuna eftir upphafsleikhlutann.
 
Eins og fyrr greinir var Justin Shouse eins og kóngur í ríki sínu en hann fór af velli í öðrum leikhluta þegar þrjár mínútur voru liðnar. FSu komust þá á bragðið og minnkuðu muninn í 35-25 svo Teitur Örlygsson þjálfari Stjörnunnar var ekki lengi að koma Justin aftur í leik. Eftir fína baráttu gestanna stóðu leikar 43-32 fyrir heimamenn og Justin kominn með 20 af stigum Stjörnunnar.
 
Liðsmenn FSu áttu ekki meira á tanknum í þriðja leikhluta þar sem Stjarnan hreinlega valtaði yfir þá. Vörn Stjörnunnar var þétt og þá virtist litlu muna um að Fannar Helgason, miðherji liðsins, væri í borgaralegum klæðum. Fannar meiddist á hné gegn Snæfell á dögunum og er þess vænst að hann verði frá næstu tvær vikurnar eða svo. Þó liðsinni Fannars hafi ekki notið við í kvöld skal ósagt látið hvort Stjörnumenn geti verið án hans í næstu leikjum.
 
Þegar líða tók á þriðja leikhluta var þetta aðeins spurning um hversu stór sigur Stjörnunnar yrði gegn ungu botnliði FSu. Lokatölur reyndust vera 95-70 heimamönnum í vil sem tróna áfram á toppi deildarinnar.
 
Justin Shouse var ekki sá eini sem lét til sín taka í liði Stjörnunnar því hann hafði nokkuð hægt um sig í síðari hálfleik. Jovan Zdravevski kom honum næstur með 18 stig og 8 fráköst og þá gerði Birkir Guðlaugsson 18 stig fyrir bikarmeistarana.
 
Alexander Stewart var næststigahæstur hjá FSu á eftir Cristopher Cair en Stewart gerði 13 stig og tók 5 fráköst. Liðsmenn FSu eiga von á leikstjórnanda bráðlega og þá hugsanlega vænkar hagur þeirra eitthvað en útlitið er svart í augnabliknu.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -