Leikið var í Iceland-Express deild karla í Hveragerði í kvöld og í þetta sinn voru það Tindastóls-menn sem kíktu í heimsókn í Blómabæinn.
Fyrsti leikhluti fór heldur skringilega af stað og lítil sem engin vörn spiluð hjá liðunum. Tindastóls-menn voru duglegri í að klára færin sín en heimamenn fylgdu fast á eftir. Eftir 1. leikhluta var staðan 19-18 heimamönnum í vil og skemmtilegt var að sjá að af 19 stigum Hamars var Marvin Valdimarsson með 12.
Lítið var skorað í upphafi 2. leikhluta og fyrsta karfan leit ekki dagsins ljós fyrr en eftir rúmar 2 mínútur, þegar Andre Dabney sem setti niður þrist. Staðan orðin 22-18. Hamars-menn voru töluvert sterkari heldur en gestirnir og náði Hamar 8 stiga forskoti á tímabili, 30-22. Þá hrukku gestirnir í gang og setti Friðrik Hreinsson niður meðal annars 2 þrista með stuttu millibili og var staðan 34-32 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
3. leikhluti byrjaði rólega í stigum talið því að eftir að Amani Daanish hafði sett niður 1 víti, kom ekkert stig í tæpar 3 mínútur. léleg nýting beggja liða leit dagsins ljós á þessum tímapunkti en varnarleikur liðanna var samt sem áður ekki upp á marga fiska. Hamars-menn voru þó sterkari þegar liðin hrukku í gang og fyrir lokaleikhlutann var staðan 58-46 heimamönnum í vil. Kaldur sviti rann milli skinns og hörunds áhorfenda þegar Andre Dabney, leikmaður Hamars, lá eftir, eftir að hafa snúið á sér ökklann. Hann stóð þó fljótlega upp aftur, og eftir nokkra mínútna hvíld kom hann aftur inn á. Þó sást á honum að hann kenndi til í löppinni. Hann verður vonandi ekki lengi að jafna sig eftir þetta.
Áfram hélt leikurinn þaðan sem frá var horfið og áfram höfðu heimamenn örugga forystu. Þegar rúmar 6 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 66-52 og ljóst að mikið þyrfti að ganga á svo að að Tindastóls-menn kæmust aftur inn í leikinn. Það gerðist hinsvegar ekki og Hamar vann mikilvægann 12 stiga sigur 80-68.
Atkvæðamestur í liði Hamars var, eins og svo oft áður, Marvin Valdimarsson með 25 stig.
Næst á eftir honum kom Andre Dabney með 16 sig, 8 stoðsendingar og 6 fráköst.
Skemmtilegt var að fylgjast með hinum tvítuga Páli Helgasyni sem sýndi stórskemmtilega varnartilburði á köflum. Hann stóð sína plikt vel og setti niður 9 stig, þar af einn þrist.
Hjá gestunum var það Svavar Atli Birgisson sem var atkvæðamestur með 17 stig og 5 fráköst.
Friðrik Hreinsson gerði 15 stig, allt úr þristum og Helgi Rafn Viggósson gerði 12.
Jakob Hansen
Mynd: Jóhann Tr. Sigurðsson



