Brottrekstur Scott, sem gerði garðinn frægan sem leikmaður með gullaldarliði LA Lakers á níunda áratugnum, er nokkuð óvæntur þrátt fyrir að Hornets hafi einungis unnið þrjá af fyrstu níu leikjum tímabilsins. Scott stýrði liðinu til 56 sigra veturinn 2007-2008 og var valinn þjálfari ársins í kjölfarið. Gengi liðsins í fyrra og þar sem af er hefur hins vegar verið lítið til að hrópa húrra yfir og raunar virðist liðið vera rekið með sparnað í fyrirrúmi þar sem ekkert hefur verið bætt við í mannskap fyrir utan skiptin á Emeka Okafor sem kom frá Charlotte í skiptum fyrir Tyson Chandler.
Byron Scott rekinn frá Hornets
Byron Scott hefur verið leystur frá störfum sem þjálfari New Orleans Hornets eftir slaka byrjun á tímabilinu og er þannig fyrsti þjálfarinn sem er látinn taka pokann sinn þennan veturinn. Þetta kemur fram á Yahoo! Sports í kvöld. Framkvæmdastjóri félagsins, Jeff Bower, hefur tekið við taumunum, en honum til halds og trausts er Tim Floyd sem þjálfaði lið Hornets fyrir um fimm árum.
Bower tekur sín fyrstu skref á þjálfaraferlinum á morgun þegar Hornets mæta Portland Trail Blazers, en fastlega má búast við því að Scott verði inni í myndinni næst þegar þjálfarastaða losnar hjá NBA liði. Jafnvel er talið að hann muni koma sterklega til greina ef Phil Jackson hjá Lakers hættir eftir tímabilið.
Fréttir



