Ágúst Sigurður Björgvinsson þurfti að taka erfiða ákvörðun um helgina þegar Hamarsliðin hans léku á sama tíma í Subwaybikarnum en hann þjálfar bæði karla- og kvennalið félagsins. Eins og frægt er orðið valdi Ágúst að fara með kvennalið Hamars í DHL-Höllina og mæta þar ósigruðum KR-ingum. Í stuttu máli vann Hamar leikinn 64-74 og eru komnar í 8-liða úrslit. KR situr eftir með sárt ennið enda höfðu eflaust margir reiknað með þeirra sigri. Ágúst og Hamarskonur voru þó með hernaðaráætlun sem gekk afbragðsvel upp.
Voru þetta blendnar tilfinningar í gær? Að stjórna öðru liðinu og vita af hinu að spila?
Það var gríðarlega erfitt að þurfa að velja á milli liðanna sinna, ég hef alls ekki gert upp á milli liðanna hingað til og þessi ákvörðun var tekin í samstarfi við stjórn KKD Hamars. Okkar niðurstaða var sú að kvennaleikurinn væri stærri leikur. Við töldum Hamar og KR vera tvö bestu liðin í kvennaboltanum og taflan segir það. Við höfðum fulla trú á því fyrir leikinn að við gætum unnið KR en vissulega var það hundfúlt á endanum að þurfa að velja á milli liðanna sinna.
Þú virðist samt hafa valið rétt! Karlaliðið steinlá í Hólminum en þið stoppuðuð KR.
Þetta var bara planið, að vinna þennan leik. Við vissum að ef við myndum halda í við KR þá ættum við möguleika þar sem þær hafa verið að klára leikina sína mjög snemma.
Þið beittuð KR svæðisvörn allan leikinn, var það galdurinn?
Við höfum leikið tvo leiki á móti KR í vetur, í Poweradebikarnum tel ég að við hefðum átt að vinna en þar lentum við í villuvandræðum. Annars vorum við inni í hörkuleik og þar lékum við svæðisvörn og það gekk vel og því ekki ástæða til að breyta því.
Hlutskipti liðanna er ólíkt í deildinni. Á meðan KR hefur unnið alla sína leiki hefur Hamar mátt þola t.d. ósigur gegn nýliðum UMFN. Hvernig má það vera?
Ég skrifa tapið gegn Njarðvík alfarið á mig, liðið var ekki alveg tilbúið þar í aðferðir sem ég var að reyna. Við erum að móta nýtt lið og auðvitað eru allir að móta nýtt lið en við erum með svo miklar breytingar. Fjórir nýjir leikmenn koma inn í hópinn og þrír lykilleikmenn farnir frá því í fyrra og þrír af þessum fjórum nýju leikmönnum hafa misst mikið út vegna meiðsla og veikinda svo það tafði okkur. Við höfum verið meðvituð um þetta og reynt að taka bara einn leik í einu enda langt tímabil svo við fögnum þessum sigurleik í bikarnum bara vel og innilega en þetta er langt í frá búið.
Er Hamar á réttri braut núna eftir að hafa sannað að KR er ekki ósigrandi?
Þetta var klárlega stærsti sigurinn okkar á tímabilinu og ekki hægt að segja annað en að við séum á réttri braut. Í öðrum leikjum höfum við alveg verið á uppleið en ég held annars að KR tapi ekki mörgum leikjum í vetur, þetta er bara spurning um að vinna réttu leikina.



