Stórgóð skemmtun var að horfa á viðureign gamalla landsliðsmanna gegn frægum einstaklingum á Stjörnuhelgi KKÍ. Skemmst er frá því að segja að landsliðskempurnar höfðu sigur í leiknum en máttu þó hafa fyrir honum.
Lokatölur voru 39-27 kempunum í vil þar sem Páll Kolbeinsson var stigahæstur með 8 stig og sýndi gamalkunna takta utan við þriggja stiga línuna. Í liði frægra voru þeir Sverrir Bergmann og Bergur Ingólfsson stigahæstir með 6 stig.
Leikurinn var hin besta skemmtun og áhorfendur tóku vel undir þegar frægir skoruðu en þegar líða tók á leikinn tókst eldri landsliðsmönnunum að vinna salinn nokkurnveginn á sitt band.
Ljósmynd/ Logi Bergmann Eiðsson skilaði miðherjastöðunni fyrir fræga liðið og gerði það af miklum myndarbrag og þeir Guðmundur Bragason, Sigurður Ingimundarson og Birgir Mikaelsson máttu oft rifja upp tví- og þrídekkunina til að hafa hemil á Loga.



