Valsarar fögnuðu 18 stiga sigri í kvöld þegar þeir lögðu heimamenn úr Þór 58-76 í 1. deild karla í körfuknattleik. Leikurinn var þó jafn allan tímann en gestirnir frá Hlíðarenda voru þó ávallt skrefinu á undan. Valsmenn náðu svo að slíta sig frá heimamönnum um miðbik fjórða leikhluta og fögnuðu því 18 stiga sigri, 58-76.
Valsarar byrjuðu leikinn þó betur en heimamenn og náðu fljótt yfirhöndinni. Heimamenn náðu þó fljótt að minnka munin og héldu vel við gestina. Ólafur Torfason kom sterkur af bekknum hjá heimamönnum og setti niður sex stig en gestirnir frá Hlíðarenda leiddu þó leikinn með einu stigi, 18-19 þegar fyrsta leikhluta lauk. Valsarar byrjuðu annan leikhluta af krafti og náðu góðum spretti, náðu fimm stiga forskoti. Þegar um 6 mínútur voru eftir af fjórðungnum tók Böðvar Kristjánsson þjálfari Þórs leikhlé til að fara yfir málin. Þórsarar skiptu úr maður í mann vörn í svæðisvörn. Gestirnir náðu hins vegar mest átta stiga forskoti í fjórðungnum, 22-30. Þórsarar náðu þá að loka betur á gestina, hægt og bítandi minnkuðu heimamenn forskot gestanna og áður en leikhlutanum lauk náðu heimamenn að minnka forskotið niður í tvö stig, 35-37. Þannig var staðan þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik.
Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur en heimamenn og náðu fljótt sex stiga forskoti. Heimamenn voru í örlítlum vandræðum með að byrja með og gestirnir náðu mest 10 stiga forskoti, 42-52. Þar munaði mest um svæðisvörn gestanna sem riðlaði sóknarleik heimamanna aðeins. Gestirnir áttu í erfiðleikum með að hrista heimamenn af sér en leiddu þó leikinn með 5-10 stiga forskoti. Valsmenn leiddu síðan leikinn með sjö stigum þegar þriðja leikhluta lauk og leikurinn var því enn galopinn, 51-58. Heimamenn byrjuðu fjórða leikhluta af krafti og setti Bjarni K. Árnason niður þrist fyrir heimamenn og minnkaði forskotið niður í 4 stig, 54-58 og allt virtist ætla að stefna í jafnan leik. Þessi þristur frá Bjarna virtist ekki kveikja í heimamönnum heldur fór allt í baklás og ekkert gekk upp hjá þeim sóknarlega. Valsmenn héldu ró sinni og náðu smá saman að byggja upp forskot. Sóknarleikur heimamanna gekk ekki upp sem skildi og svo virtist sem heimamenn hafi misst móðinn í lok leiksins. Heimamenn skoruðu aðeins sjö stig í fjórðungnum á meðan gestirnir skoruðu 18 stig. Valsmenn náðu því að innbyrða öruggan 18 sigur sigur, 58-76.
Stigaskor heimamanna: Ólafur Torfason 16, Óðinn Ásgeirsson 14, Bjarni K. Árnason 10, Elvar Sigurjónsson 8, Hrafn Jóhannesson 6, Páll Kristinsson og Bjarki Oddsson með 2 stig hvor
Stigaskor Valsmanna: Byron Davis 18, Sigmar Egilsson 14, Hörður Hreiðarsson 11, Snorri Sigurðsson 8, Sigurður Gunnarsson 8, Björgvin Valentínusson 6, Pétur Jakobsson 3, Þorgrímur Björnsson 2, Benedikt Pálsson 2, Guðmundur Ásgeirsson 2, Daniel Kazmi 2
Myndasafn úr leiknum.
Hægt er að sjá fleiri myndir úr leiknum hér.
Umfjöllun: Sölmundur Karl Pálsson
Mynd: Rúnar Ingimarsson



