Tindastólsmenn sem sendu Amani Bin Daanish heim á dögunum hafa samið við Bandaríkjamanninn Kenney Boyd um að leik mað liðinu út leiktíðina. Kenney er miðherji upp á 206 cm og 118 kg.
Kenney er 27 ára gamall og útskrifaðist úr Morehouse háskólanum síðastliðið vor. Þar var hann með 16.5 stig, 9.5 fráköst og 2.7 stoðsendingar á síðasta tímabili sínu í skólanum og hlaut fyrir það ýmsar heiðursútnefningar. Morehouse leikur í 2. deild háskólaboltans.
Sjá má feril Kenneys hér.
Karl Jónsson þjálfari er hóflega bjartsýnn með nýja leikmanninn, sem hann telur þó henta liðinu mun betur en Amani Bin Daanish sem var látinn fara á dögunum. "Það er ekki spurning að okkur hefur vantað natural miðherja í liðið og ég tel að með því að kalla slíkan mann til leiks, komi liðið til með að taka skref fram á við. Þessi leikmaður er þyngri og sterkari en Amani og er með góðar pósthreyfingar og einnig hefur hann gott auga fyrir opnum mönnum í kring um sig," sagði Karl í stuttu samtali við heimasíðuna. "Amani var ekki slæmur leikmaður, alls ekki, hann bara hentaði okkur einfaldlega ekki nógu vel. Við erum alltaf að leita eftir því hvernig við getum styrkt liðið okkar, bæði innan þess og með utanaðkomandi aðstoð og það var einfaldlega okkar mat á þessum tímapunkti að skipta, " sagði Karl.
Karfan.is náði tali af kappanum vestur í Bandaríkjunum þar sem hann situr og bíður eftir að komast til Íslands, milli þess sem hann hleypur til að halda sér í formi.
Við hverju býstu á Íslandi?
Ég reikna með góðu liði og frábærum þjálfara og aðstoðarfólki hans. Ég hlakka til að vinna leiki og hjálpa liðinu að ná hinum stóra marki, að vinna titilinn.
En hvað getur fólk átt von á að sjá frá þér?
Að ég er baráttuglaður og ákveðinn leikmaður og hef hæfileika til að leiða Tindastól til sigurs í mörgum leikjum.
Hafðir þú heyrt um íslenskan körfubolta áður?
Ég hafði aldrei heyrt um íslenskan körfubolta áður en ég hlakka til að koma þangað og vera landi mínu og þjóð til sóma.
Hvar hefur þú leikið hingað til?
Ég útskrifaðist nýlega frá Morehouse College þannig að ég hef ekki verið atvinnumaður áður en það hefur verið draumur minn frá æsku að verða atvinnumaður í körfubolta. Nú fæ ég loks tækifæri og get farið að lifa draum minn.
Von er á kappanum til landsins á næstunni.
[email protected]/tindastoll.is
Mynd:www.tindastoll.is



