spot_img
HomeFréttirMeiðsli herja á KR: Damon í sigtinu?

Meiðsli herja á KR: Damon í sigtinu?

 
Báðir þeir Finnur Atli Magnússon og Darri Hilmarsson segja farir sínar ekki sléttar að loknu jólafríinu í Iceland Express deild karla. Finnur og Darri leika með Íslandsmeisturum KR og glíma nú báðir við hnémeiðsli. Páll Kolbeinsson þjálfari Vesturbæinga sagðist í samtali við Karfan.is vona að ekki væri langt í Darra, eitthvað lengra væri þó í Finn. Af þessum sökum eru KR-ingar að skoða ýmsa möguleika þar sem nafni Damon Johnson hefur verið kastað fram.
,,Þeir verða frá í einhverjar vikur, Finnur fær endanlega niðurstöðu á morgun en við gerum ekki ráð fyrir honum til baka fyrr en eftir 6-8 vikur. Darri verður vonandi klár fyrr,“ sagði Páll í samtali við Karfan.is. Eins og stendur er KR á toppi deildarinnar ásamt Njarðvík og Stjörnunni og hafa þessi þrjú lið 18 stig.
 
Karfan.is innti Pál eftir því hvort KR væri í leit að öðrum leikmönnum og hvort eitthvað væri hæft í því að KR hefði athugað með Damon Johnson sem gerði garðinn frægan með Keflavík á sínum tíma. Þetta hafði Páll að segja:
 
,,Við erum með mjög fámennan/lítinn hóp og megum ekki við miklum skakkaföllum. Við erum að skoða ýmsa möguleika. Damon Johnson hefur ekki spilað í einhvern tíma en hann meiddist fyrir ári síðan. En ef hann er í lagi þá væri hann fengur,“ sagði Páll svo það ætti fáum að bregða ef meistarar KR bæta við sig á næstu dögum.
 
Ljósmynd/ Páll býst við því að Finnur Atli Magnússon verði frá næstu 6-8 vikurnar.
 
Fréttir
- Auglýsing -