Það voru Grindavíkurstúlkur sem voru fyrstu gestir Hamarskvenna á nýju ári í Iceland Express-deildinni en þær kíktu í heimsókn í blómabæinn í gærdag. Hörð barátta er á milli þessara tveggja liða í deildinni en fyrir leikinn sat Grindavík í þriðja sæti og Hamar í því öðru. Með sigri áttu þær gulu möguleika á því að hoppa upp fyrir Hamar.
Bæði lið virtust spræk eftir hátíðirnar og byrjuðu nokkuð vel. Jafnræði var á með þeim allan 1. leikhluta og skiptust liðin á því að hafa forystuna. Staðan var hnífjöfn eftir 1. hlutann 25-25.
Áfram var haldið þaðan sem frá var horfið og var mjög lítið sem skyldi á milli liðanna framan af öðrum leikhluta. En í stöðunni 35-37, Grindavík í vil og tæpar 5 mínútúr til hálfleiks, var eins og slokknað hefði gjörsamlega á Hamarsstúlkum. Óþarfa villur, mistök við að klára opin færi, tapaðir boltar og fleira í þeim dúr skilaði sér þannig að Michele DeVault setti niður 3. þristinn sinn, Petrúnella Skúladóttir kláraði góða sókn með fínu sniðskoti og Helga Hallgríms setti niður víti eftir að Fanney Lind hafði brotið á henni. Rétt fyrir lok fyrri háfleiksins var staðan 38-48 fyrir gestina og staðan 40-48 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Á þessum tímapunkti var Koren Schram komin með 14 stig hjá Hamarsstúlkum en DeVault hjá Grindavík var komin með 17 og þar af fimm þrista.
Þriðji leikhluti var nokkuð öruggur hvað varðar Grindavík. Hamarsstúlkur náðu að saxa eilítið á forskotið í upphafi en eftir það náðu gestirnir að halda sig um 10 stigum yfir allan leikhlutann. Honum lauk svo þegar Grindavík var sjö stigum yfir í stöðunni 66-73.
Heimastúlkur þyrftu nú aldeilis að breyta gangi mála ef ekki ætti illa að fara. Ef þær gætu snúið taflinu sér í hag á þessum tímapunkti, yrði það ekki í fyrsta skipti í vetur sem þær gyrða sig í brók svona seint.
Þegar staðan var búin að vera 70-77 í rúmar tvær mínútur náðu Hamarsstúlkur að skora og koma muninum niður í fimm stig og virtust aldeilis vera tilbúnar í þetta. En það virtist of gott til að vera satt því að gestirnir spíttu bara í lófana, skoruðu 5 stig í röð og munurinn kominn aftur í 10 stig.
Gestirnir innbyrgðu að lokum verðskuldaðan 11 stiga sigur 76-87.
Stærstu rulluna í liði Grindavíkur spilaði án efa Michele Devault sem var með 29 stig, þar af níu þrista, og 8 fráköst. Næst á eftir henni kom Íris Sverrisdóttir með 13 stig og 8 stoðsendingar. Petrúnella Skúladóttir var svo með 12 stig, 8 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hjá heimastúlkum átti Koren Schram góðan leik með 28 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar. Sigrún Ámundadóttir var svo með 13 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir var með 12 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og 7 fiskaðar villur.
Umfjöllun: Jakob F. Hansen
Mynd: Úr safni



