spot_img
HomeFréttirFjörugur leikur í Hveragerði

Fjörugur leikur í Hveragerði

Boðið var upp á frábæra skemmtun í Hveragerði í kvöld þar sem Hamar tók á móti Snæfelli frá Stykkishólmi. Snæfell var búið að vinna báða fyrri leikina við Hamar í Hólminum, annar í IE-deildinni og hinn í Subway-bikarnum.
Leikurinn hófst af miklum krafti og boðið var upp á sóknarsýningu í byrjun. Andre Dabney opnaði leikinn fyrir Hamarsmenn með góðum þristi og komust Hamar í 5-0 áður en að Sigurður Þorvaldsson í liði Snæfells setti sjálfur þrist til að minna á sig. Þetta er ríkjandi lýsing á fyrstu 3 mínútunum og var staðan orðin 11-11 þegar 3 mínútur voru liðnar. Jafnræði var á með liðunum þangað til í stöðunni 17-18 Snæfelli í vil að þeir sigu örlítið framúr. Staðan að loknum 1. Leikhluta var 20-26.
 
Þegar 3 mínútur voru liðnar af 2. Leikhluta var munurinn orðinn 10 stig, 24-34 og létu gestirnir forrystuna aldrei af hendi eftir þetta. Snæfell var 18 stigum yfir þegar liðin gengu til búningsherberja í hálfleik, 37-55.
 
Andre Dabney var þarna kominn með 19 stig af 37 stigum Hamars en Marvin Valdimars var einungis með 2.
 
Seinni hálfleikur hófst rétt eins og sá fyrri endaði en eftir 5 mínútna leik var staðan 50-73 og héldu án efa margir að sigurinn væri einungis formsatriði fyrir Snæfell núna, en annað kom á daginn.
 
Skyndilega tók við ótrúlegur kafli Hamarsmanna, sem höfðu rétt í þessu skipt yfir í maður á Mann. Hamar gyrtu í brók og skorðu hvorki meira né minna en 15 stig á móti einungis 2 stigum Snæfellinga og staðan orðin 65-75 þegar 1 mínúta var liðin af lokaleikhlutanum.
 
Sean Burton fékk körfu góða eftir að Marvin hafði brotið á honum og staðan 65-78. Þá var komið að þriggjastiga sýningu í boði heimamanna. Fyrstur var það Marvin sem setti niður þrist eins og honum einum ER lagið. Næstur á svið var Oddur Ólafsson, ekki með einn heldur tvo þrista í röð og mátti næstum sjá hvernig Oddur stýrði boltanum í körfuna með augunum. Eftir þetta var staðan allt í einu orðin 74-80 og leikurinn í járnum. Hamar skoraði einnig næstu tvær körfur, staðan 78-80 og gríðarleg stemning á pöllunum.
 
Hamar komst þó ekki nær heldur en 2 stig í stöðunni 78-80 og 82-84 og unnu gestirnir að lokum með 12 stigum 86-98.
 
Hjá heimamönnum var það Andre Dabney sem var atkvæðamestur með 38 stig, 7 fráköst, 5 stoðsendingar og 9 fiskaðar villur. Svavar Páll og Marvin voru með 15 stig hvor og Oddur Ólafs með 12 stig og 6 fráköst.
 
Hjá Snæfelli var það Sean Burton sem var atkvæðamestur með 28 stig og 6 stoðsendingar en hann var með 7 þrista í 14 tilraunum. Næstur kom Jón Ólafur Jónsson með 23 stig og 12 fráköst. Sigurður Þorvaldsson var með 18 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar. Hlynur Bærings var með 13 stig og 14 fráköst.
 
 
Texti: Jakob F. Hansen
Ljósmynd/ Úr safni: Burton var atkvæðamestur Hólmara í kvöld
Fréttir
- Auglýsing -