spot_img
HomeFréttirKR hefndi rækilega fyrir bikarófarirnar

KR hefndi rækilega fyrir bikarófarirnar

 KR tók á móti Hamri í stórleik kvöldsins í Iceland Express deild kvenna en Vesturbæingar áttu harma að hefna gegn Hvergerðingum eftir bikarleikinn þar sem Hamar sló KR út. Fyrsta korterið var mikið fjör í leiknum og barist á öllum vígstöðum en næstu 25 mínútur átti KR skuldlausar. Lokatölur í DHL-Höllinni voru 77-49 KR í vil þar sem hver einasti kjaftur í KR liðinu stóð sig vel með glæsilegri baráttu. Með ósigrinum misstu Hamarskonur einnig annað sætið í deildinni upp í hendur Grindavíkur.
Hildur Sigurðardóttir opnaði leikinn fyrir KR með þriggja stiga körfu og heimakonur komust í 5-0 áður en Guðbjörg Sverrisdóttir kom Hamri á blað. KR lék í kvöld án Unnar Töru Jónsdóttur sem stödd er erlendis. Rétt eins og í bikarleik liðanna í DHL-Höllinni þá voru gestirnir úr Hveragerði mættir með svæðisvörnina sem skilaði litlu á upphafsmínútunum þar sem KR komst í 11-4.
 
Hamarskonur jöfnuðu sig þó fljótt og minnkuðu muninn í 11-10 með tveimur þriggja stiga körfum frá Guðbjörgu Sverrisdóttur og Kristrúnu Sigurjónsdóttur. KR hafði þó undirtökin og leiddi 20-17 að loknum fyrsta leikhluta sem gaf fögur fyrirheit enda einkenndist leikhlutinn af hraða og góðri baráttu.
 
Íris Ásgeirsdóttir minnkaði muninn í 20-19 strax í upphafi annars leikhluta en að öðrum kosti gekk liðunum illa að finna körfuna, baráttan var þó til staðar en stigin vantaði. Jóhanna Björk Sveinsdóttir náði svo loks að koma KR á blað í öðrum leikhluta með skoti í teignum en það voru fyrstu stig KR í leikhlutanum í rúmar þrjár mínútur.
 
Vörnin spilaði stærsta hlutverkið hjá báðum liðum í öðrum leikhluta og Fanney Lind Guðmundsdóttir fékk að kæla sig í liði Hamars þar sem hún var komin með þrjár villur. Jóhanna Björk var að finna sig vel gegn sínum gömlu félögum í Hamri og með þriggja stiga körfu kom hún KR í 27-21 þegar tæpar fjórar mínútur voru til hálfleiks.
 
Hamarskonur tóku leikhlé í stöðunni 33-24 eftir gott áhlaup KR en þegar hér var komið við sögu voru innan við tvær mínútur til hálfleiks. Leikhlé Hamars hafði ekki tilætluð áhrif þar sem KR gerði 7 síðustu stig leikhlutans (og 13 síðustu stig fyrri hálfleiks) eftir leikhlé Hamars og leiddu því 40-24 í hálfleik.
 
Jenny Finora og Hildur Sigurðardóttir voru báðar með 9 stig í hálfleik í liði KR en Finora kom köld af bekk KR en tókst hægt og bítandi að skjóta sig í gang. Hildur átti góðan fyrri hálfleik þar sem hún stýrði hröðum sóknarleik KR af kostgæfni. Hjá Hamri voru Kristrún Sigurjónsdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir stigahæstar í leikhléi með 7 stig en Koren Schram var aðeins með 5 stig og gekk illa að finna körfuna með 16,7% skotnýtingu í teignum og 20% þriggja stiga nýtingu.
 
KR þurfti ekki langan tíma til að koma muninum upp í 20 stig og það gerði Hildur Sigurðardóttir með sniðskoti eftir magnað samspil við Margréti Köru og staðan orðin 44-24 fyrir KR. Gestirnir úr Hveragerði sáu sig tilneydda til að taka leikhlé enda gerði KR 10 stig í röð og leiddu 50-24 eftir að tæpar fimm mínútur voru liðanar af þriðja leikhluta. Þar með höfðu KR-ingar gert 23 stig í röð án þess að Hamar næði að svara!
 
Koren Schram kom Hamri loksins á blað strax eftir leikhléið er hún braust í gegnum KR múrinn og staðan 50-26 og útlitið afar svart hjá gestunum gegn baráttuglöðu liði KR. Guðrún Gróa, Margrét Kara og Hildur Sigurðar voru þó ekkert á þeim buxunum að gefa Hamri nein grið og því jókst munurinn og staðan 62-35 KR í vil fyrir lokaleikhlutann. KR vann því þriðja leikhluta 22-11 og höfðu algera yfirburði í öllum þáttum leiksins.
 
Heiðrún Kristmundsdóttir kom inn af bekk KR og breytti stöðunni í 71-44 þegar sex mínútur voru til leiksloka en það virtist ekki skipta sköpum hver kæmi inn á í liði KR því röndóttar áttu allan síðari hálfleikinn frá upphafi til enda.
 
Lokatölur í DHL-Höllinni urðu 77-49 KR í vil og því þrettándi deilarsigur Vesturbæinga kominn í hús. Yfirburðir toppliðsins voru algerir í kvöld og það sem stefndi í spennandi og harðan leik varð að kennslustund. Leikurinn var spennandi í um það bil korter áður en vörn KR sagði hingað og ekki lengra.
 
Stigahæst í liði KR var Jenny Finora með 18 stig, Guðrún Gróa og Hildur Sigurðardóttir voru með 13 stig og þá áttu þær Signý, Jóhanna Björk og Margrét Kara allar ljómandi fínan dag í sterkri liðsheild KR.
 
Hjá Hamri var Kristrún Sigurjónsdóttir stigahæst með 18 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir var með 10 stig. Þar sem Grindavík hafði betur gegn Val í Röstinni í kvöld hefur Grindavík nú 18 stig í 2. sæti deildarinnar en Hamar færist niður í 3. sæti með 16 stig.
 
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir fór á kostum í kvöld og klippti Koren Schram algerlega út úr leiknum.
 
Fréttir
- Auglýsing -