spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Slegist um Suðurlandið

Leikir kvöldsins: Slegist um Suðurlandið

 
Þrettánda umferðin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Boðið verður upp á grannarimmu þegar FSu tekur á móti Hamri í Iðu á Selfossi.
Liðsmenn FSu stríddu KR í síðustu umferð en höfðu ekki bolmagn í að klára leikinn en sýndu á sér batamerki og verði áframhald þar á mega körfuknattleiksunnendur gera ráð fyrir líflegum grannaslag í kvöld. Þó staða FSu sé ekki vænleg þá eru þeir ekki enn fallnir úr deildinni þó þeir séu án stiga því ekki langt undan með fjögur stig eru Fjölnir og Breiðablik. Hamarsmenn hinsvegar sitja í 8. sæti deildarinnar með 8 stig og berjast fyrir því að komast í úrslitakeppnina.
 
Á Sauðárkróki mætir þéttmannað Njarðvíkurlið í heimsókn en með tilkomu Nick Bradfords hefur heldur betur kviknað á pressunni í Ljónagryfjunni. Njarðvíkingar hafa 20 stig á toppnum og geta í kvöld með sigri tyllt sér einir á toppinn um hríð þar sem KR og Stjarnan leika ekki fyrr en annað kvöld. Stólarnir máttu þola háðuglega útreið í Grindavík í síðustu umferð og vilja væntanlega rétta sinn hlut en Tindastóll situr í 9. sæti deildarinnar með 8 stig.
 
Þriðji og síðasti leikur kvöldsins í Iceland Express deildinni er leikur Grindavíkur og Fjölnis sem fram fer í Röstinni. Fjölnismenn stríddu toppliði Stjörnunnar í síðustu umferð en köstuðu svo inn handklæðinu á síðustu tíu mínútum leiksins. Páll Axel Vilbergsson setti 54 stig í Röstinni gegn Stólunum í síðustu umferð og spurning hvor sá gállinn verði á honum í kvöld?
 
Þá mætast Höttur og Þór Akureyri á Egilsstöðum kl. 20:00. Þórsarar sem féllu úr Iceland Express deildinni á síðustu leiktíð hafa gengið í gegnum miklar breytingar og ekki fundið taktinn í 1. deild þar sem liðið hefur aðeins 4 stig í 8. sæti deildarinnar. Höttur hefur hinsvegar 6 stig í 7. sætinu og geta Þórsarar því jafnað Hött að stigum með sigri í kvöld.
 
Einn leikur fer fram í bikarkeppni yngri flokka þegar Njarðvík tekur á móti Þór Þorlákshöfn/Hamri kl. 19:00 í 9. flokki karla.
 
Fréttir
- Auglýsing -