Nýliðar Fjölnis komu Grindvíkingum á óvart með hörku leik þegar liðin mættust í Röstinni. 109 – 111 voru lokatölur leiksins eftir spennuþrungna framlenginu. Leikurinn var mjög jafn en Fjölnismenn höfðu betur á lokasprettinum og var Tómas Tómasson hetja þeirra.
Leikurinn fór af stað á fullum krafti og skiptust liðin á því að skora. Fjölnismenn pressuðu allan fyrri hálfleikinn gegn hálf vængbrotnu liði Grindvíkinga en þeir voru án þriggja lykillmanna sinna eða þeirra Þorleifs Ólafssonar, Brenton Birmingham og Arnars Freys Jónssonar. Christopher Smith og Ægir Steinarsson fóru mikinn fyrir lið Fjölnismanna og gerði Smith 14 stig og Ægir 7 stig ásamt að gefa 5 stoðsendingar. Hjá heimamönnum var það Darrell Flake sem dró vagninn og skoraði 15stig.
Fjölnismenn komu ákveðnari inn í 3.leikhluta og byrjuðu betur. Heimamenn skiptu þá yfir í svæðsvörn. Það hafði lítil áhrif á gestina og héldu þeir áfram að spila sinn leik. En Flake hélt heimamönnum inni leiknum og endaði 3.leikhluti 71-73 gestunum úr Grafarvoginum í vil.
Heimamenn komu sterkir til leiks í 4.leikhluta og voru það Flake og Ólafur sem drógu vagninn. Leikhlutinn var mjög jafn og spennandi allan tímann fram að lokasekúndum leikhlutans. Þegar 26 sekúndur voru eftir er leikurinn jafn þegar Flake fiskar villu og fer á línuna, en hvorugt skotanna rataði ofaní. Fjölnir fékk annað tækifæri og keyrir Ægir inn í teig og gefur misheppanða sendingu sem rataði í hendur heimamanna. Þeir geystust í sókn var þá brotið á leikmanni Grindavíkur og fengu þeir innkast á hliðarlínunni. Misstu þeir þá boltann klaufalega og Fjölnir fékk lokaskot. Ægir tók það en það geigaði. Lokatölur eftir venjulegan leiktíma var 99-99.
Ægir opnaði framlenginguna með þristi og var jafnt allan tímann. Þegar minna en mínúta var eftir setti Guðlaugur Eyjólfsson tvo mikilvæga þrista og Grindavík komnir 2 stigum yfir. Þegar 17 sekúndur eru eftir setti Tómas Tómasson niður þrist og Fjölnismenn komnir 1 stigi yfir. Grindavík fékk eina tilraun í viðbót og geigaði þriggjastigaskot Ármanns Vilbergssonar og reyndi Ólafur Ólafsson að tippa boltanum ofaní en fór það rétt framhjá. Fjölnir fékk boltann og Tómas fór á línuna og tryggði 2 stiga sigur Fjölnismanna á Grindvíkingum.
Ljósmynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson: Ægir Þór Steinarsson fann sig vel í Röstinni
Texti: Marteinn Guðbjartsson



