spot_img
HomeFréttirFjöldi leikja í íslenska boltanum í kvöld

Fjöldi leikja í íslenska boltanum í kvöld

 
Körfuknattleiksáhugamenn ættu að hafa nóg fyrir stafni í kvöld þar sem fjöldi leikja er á dagskrá. Þrettándu umferð í Iceland Express deild karla lýkur og þá eru nokkrir leikir í 1. deild karla. Vafalítið verður þéttsetið á bekkjum Kennaraháskólans þegar ÍR tekur á móti KR kl. 19:15 í sannkölluðum Reykjavíkurslag í kvöld.
KR er sem kunnugt á toppi deildarinnar með Njarðvík og Stjörnunni en Vesturbæingar lentu í basli með FSu í síðustu umferð en ÍR-ingar stríddu Njarðvíkingum í Ljónagryfjunni þar sem fjörkálfurinn Nick Bradford lék sinn fyrsta leik í grænu.
 
Snæfell fær Breiðablik í heimsókn og vafalítið eru Blikar farnir að hugsa sinn gang eftir sigur Fjölnismanna á Grindavík í gær en með sigrinum settu Fjölnismenn Blika í fallsæti með FSu. Snæfell vermir 5. sæti deildarinnar með 16 stig og vinna hörðum höndum að því að koma sér vel fyrir í úrslitakeppninni en sex efstu sæti deildarinnar eru galopin þar sem aðeins sex stig skilja að toppliðið og liðið í 6. sæti.
 
Þá verður stórleikur í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ þegar Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn. Með sigri getur Keflavík jafnað Stjörnuna að stigum en Stjarnan hafði betur þegar liðin mættust í fyrri umferðinni í Ásgarði.
 
Í 1. deild karla tekur Þór Þorlákshöfn á móti Skallagrím kl. 19:15 í Þorlákshöfn og á sama tíma mætast ÍA og Ármann. Valur fær svo Hauka í heimsókn í Vodafonehöllina kl. 20:00.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -