Hamarskonur hafa styrkt sig fyrir lokasprettinn í Iceland Express-deildinni í körfubolta. Hin pólska Julia Demirer er aftur mætt í Hveragerði en hún lék með Hamri í fyrra og skoraði þá 17,3 stig að meðaltali í leik og tók 12,6 fráköst. Þetta kemur fram á Íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.
Julia verður væntanlega klár í næsta deildarleik Hamars sem verður gegn Snæfelli úr Stykkishólmi hinn 20. janúar.
Koren Schram verður áfram í liði Hamars en hún er stigahæsti leikmaður liðsins með 19,8 stig. Sigrún Ámundadóttir kemur þar næst með 14,2 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir hefur skorað 13,7 stig að meðaltali.
Hamar er í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig en liðið hefur unnið átta leiki og tapað fjórum. KR er í efsta sæti með 26 stig eftir 13 sigurleiki í röð. Grindavík er í öðru sæti með 18 stig og Keflavík í því fjórða með 14 stig.
Ljósmynd/ Ágúst og Hamarskonur fá liðsstyrk.
Frétt: Morgunblaðið – www.mbl.is



