spot_img
HomeFréttirÖrlygur í sérflokki

Örlygur í sérflokki

 Fyrir rétt um 10 árum síðan gerðist sá hörmulegi atburður að Örlygur Aron Sturluson leikmaður UMFN lést að slysförum þá aðeins 18 ára gamall.  Örvar Þór Kristjánsson þjálfari og körfuboltamógúll úr Njarðvíkum settist niður og skrifaði grein um Örlyg honum til heiðurs sem birt er á heimasíðu UMFN og er nú birt hér í heild sinni. 
 Fyrir hönd körfuknattleiksdeildar UMFN hef ég sett saman smá pistil um Örlyg heitinn til þess að minnast þessa frábæra leikmanns og ljúfa drengs sem á sérstakan sess í hjörtum allra Njarðvíkinga. Skarð Ölla verður aldrei fyllt en frábærar minningar um góðan og fallegan dreng lifa að eilífu. Eins og Ingi Gunnarsson heitinn komst svo vel að orði í fallegri minningargrein um Ölla “þá er það eitt víst að þar sem sál Örlygs Arons er – þar er verið að spila körfubolta”

Virðingarfyllst,
 
Örvar Þór Kristjánsson

 
Ölli eftir minnibolta mót. Örlygur í treyju númer 9 líkt og pabbi gamli.

Örlygur Aron Sturluson fæddist 21. maí árið1981. Hann lést af slysförum í Njarðvík sunnudaginn 16. janúar árið 2000 eða fyrir um 10 árum síðan. Örlygur lék allann sinn feril með UMFN og vakti strax athygli enda gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður og einstaklega góð manneskja. Ölli eins og hann var kallaður var allra hugljúfi og mikil og góð fyrirmynd. Þrátt fyrir mikla velgengni þá ofmetnaðist hann aldrei og talaði aldrei um eigin ágæti, var ávallt tilbúinn til þess að hjálpa lítilmagnanum.

Ölli var afburða íþróttamaður með ótrúlegan líkamlegan og andlegan styrk. Upp alla yngri flokkana hjá UMFN var hann frábær og haustið 1997 þá aðeins 16 ára gamall var hann tekinn inn í meistaraflokk UMFN. Þessi geðugi og kraftmikli piltur vakti strax ótrúlega mikla athygli meðal liðsfélaga sinna og lét strax mikið að sér kveða á æfingum. Eldri leikmenn liðsins höfðu á orði það þessi ungi drengur hefði gott af því að kynnast hörðum heim meistaraflokksins en Ölli var ekki mættur bara til þess að vera með! Framistaða Ölla var svo mögnuð á æfingum að um mitt tímabil hafði þessi “pjakkur” unnið sér sæti í byrjunarliði UMFN sem leikstjórnandi. Fyrsti leikurinn hans með meistaraflokki UMFN var uppi á Akranesi 7. desember 1997. Ölli var í byrjunarliðinu og gegndi þar lykilhlutverki sem leikstjórnandi en það er með erfiðustu hlutverkum í körfubolta. Þennan leik spilaði hann af svo miklu öryggi að það var eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Eftir þetta átti Ölli hvern stórleikinn á fætur öðrum eins og svo margir muna og átti hann stóran þátt í því að þann 19.apríl árið 1998 hampaði UMFN eftirsóttasta titlinum í íslenskum körfubolta, Íslandsmeistaratitlinum. Leikur tvö í úrslitaeinvíginu gegn KR gleymist seint en þann leik vann UMFN 72-56, Ölli setti 20 stig, gaf 9 stoðsendingar, reif 3 fráköst og stal 6 boltum!


Sæmundur Oddsson, Logi Gunnarsson, Örlygur, Sævar Sævarsson, Bergvin Ólafarson og Kristinn Þorvaldsson.

Veturinn næsta hélt Ölli svo til Bandaríkjanna til þess að fara í skóla í Norður Karólínu og spila körfubolta og þar stóð hann sig einnig mjög vel og þroskaðist mikið. Fyrir tímabilið 1999-2000 þá ákvað hann að vera um veturinn heima á Íslandi og kom þá ekkert annað til greina en að spila með Njarðvík. Örlygur Aron Sturluson, að öllum öðrum ólöstuðum, var klárlega einn besti leikmaður Íslandsmótsins það tímabilið og það aðeins 18 ára gamall. Enda kom það fáum á óvart að kappinn var valinn í A-landsliðið og spilaði þrjá landsleiki í nóvember og desember 1999. Lokaleikur hans á stuttum en afar farsælum ferli var 15. janúar árið 2000 en það var Stjörnuleikur KKÍ, Ölli var valinn fyrstur Íslendinganna til að spila.

 
Skjótur frami Ölla var í raun með ólíkindum, allt frá því að vera góður leikmaður í yngri flokkum félagsins til þess að vera máttarstólpi eins sterkasta körfuboltaliðs landsins aðeins 18 ára gamall. Ein blaðafyrirsögn sem birtist stuttu áður en Ölli lést hljóðaði svo “Örlygur í sérflokki”. Það segir allt um þennan frábæra leikmann, frábæran dreng.

Eftirminnilegt og ógleymanleg troðsla hjá Ölla gegn KR í leik númer 2
 

Leiðtogi !  Örlygur var strax 16 ára að aldri byrjaður að stjórna leik UMFN

Kappinn var valinn til að leika með drengja- og unglingalandsliði Íslands og loks A-landsliðinu árið 1999 þrátt fyrir að vera ungur að árum. Auk þess var hann valinn til að leika með stjörnuliði og úrvalsliði Reykjanesbæjar í Evrópukeppninni árið 1999. Eins og fyrr segir var Ölli Íslandsmeistari með UMFN árið 1998 í einum óvæntasta titli í sögu UMFN en jafnframt einum þeim sætasta. Minningin um Ölla mun ávallt lifa hjá UMFN.
 
Þar sem englarnir syngja sefur þú
 
Sefur í djúpinuværa
 
Við hin sem lifum, lifum í trú
 
Á að ljósið bjarta skæra
 
Veki þig með sól að morgni
 
Veki þig með sól að morgni
 
 
 
Drottinn minn Faðir lífsins ljós
 
Lát náð þína skina svo blíða
 
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
 
Tak minn myrka kvíða
 
Þú vekur hann með sól að morgni
 
Þú vekur hann með sól að morgni
 
 
 
Faðir minn láttu lífsins sál
 
Lýsa upp sorgmætt hjarta.
 
Hjá þér ég finn frið og skjól
 
Láttu svo ljósið þitt bjarta.
 
Vekja hann með sól að morgni
 
Vekja hann með sól að morgni
 
 
 
Drottinn réttu sorgmæddri sál
 
Svala líknarhönd
 
Og slökk þú hjartans harmabál
 
Slít sundur dauðans bönd.
 
Svo vaknar hann með sól að morgni
 
Svo vaknar hann með sól að morgni.
 
 
 
Farðu í friði vinur minn kær
 
Faðirinn mun þig geyma.
 
Um aldur og ævi þú verður mér nær
 
Aldrei skal þér gleyma.
 
Svo vöknum við með sól að morgni
 
Svo vöknum við með sól að morgni.
 
Höf: Bubbi Morthens

 Njarðvíkurliðið í Borgarnesi árið 1999. Örlygur númer 7
Fréttir
- Auglýsing -