Ungmennafélag Álftaness, sem að mestu er skipað aðfluttum Austfirðingum, lagði Félag Litháa 78-62 í B riðli 2. deildar körfuknattleik á mánudagskvöld.
Félag Litháa hefur sett skemmtilegan svip á 2. deildina í körfuknattleik. Í leiki í deildinni, sem oftast nokkrir nánir vinir leikmanna mæta á, fylgir stór skari áhorfenda. Þeir rísa á fætur þegar þeir eru spenntir, klappa fyrir liðinu sínu og blístra og baula á mótherjana á vítalínunni til að reyna að koma þeim úr jafnvægi. Tveir vinir leiddu hópinn á Álftanesi í gærkvöldi. Annar vafinn inn í þjóðfánanna, hinn með trommu sem hann barði með Sprite-flösku. Þeir öskruðu, fögnuðu, fórnuðu höndum og helltu orðum yfir dómarana, sem þeir varla skyldu, þegar þeim mislíkaði dómgæslan.
Leikurinn leið annars áfram í hægum kraftabolta en bæði lið hafa sýnt skemmtilegri leik. Heimamenn höfðu samt ávallt undirtökin með fjögurra stiga forustu framan af, sem fór reyndar niður í þrjú fyrir leikhlé, 35-32.
Um miðjan þriðja leikhluta fór loks að draga í sundur með liðunum en tvær þriggja stiga körfur Sigmars Stefánssonar voru Litháunum kjaftshögg. Munurinn hélst í um tíu stigum eftir það en sigur Álftnesinga virtist ekki í hættu. Þeir skoruðu úr fjórum þriggja stiga skotum í lokin og því varð munurinn sextán stig.
Texti og myndir: Gunnar Gunnarsson




