Hamar tók á móti Snæfelli, í Hveragerði, í síðustu umferð IcelandExpress-deildar kvenna fyrir skiptingu. Ætla mátti að Hamarsliðið ætlaði sér að slátra þessum leik enda án efa sigurþyrst eftir sárt tap í Keflavík í bikarnum síðustu helgi.
Hamarsstúlkur hófu leikinn töluvert betur heldur en gestirnir og var staðan eftir 1 leikhluta 20-13 Hamri í vil.
Heimastúlkur hófu 2. Leikhlutann eins og sá fyrsti endaði og skoruðu þær 9 stig áður en Gunnhildur Gunnarsdóttir (Snæfell) setti niður 2 víti eftir að Jenný Harðardóttir braut á henni, staðan 29-15. Hamar héldu ágætri forrystu í gegnum Allan leiklhutann þangað til í blálokin að Snæfell náði aðeins að bíta frá sér og munaði 8 stigum á liðunum þegar þau gengu til búningsherbergja, 40-32.
Það var líkt og að Snæfellsstúlkur væru ekki mættar til leiks í upphafi seinni hálfleiks, því eftir rúmar 5 mínútur höfðu Hamarsstúlkur skorað 15 stig á móti einungis 6 stigum gestanna og staðan orðin 55-38. Fyrir lokaleikhlutann var staðan 68-46 fyrir Hamri og ljóst var að gestirnir áttu ekki mikla möguleika.
Seinasti leikhlutinn var svo öruggur hvað varðar Hamarsstúlkur og lauk leiknum með 32. Stiga sigri þeirra, 90-58.
Skemmtilegt var að sjá að ungu stelpurnar hjá Hamri, sem hafa mátt þola mikla bekkjarsetu í vetur, fengu allar að spreyta sig og setti Bylgja Sif Jónsdóttir meðal annars fyrsta stigið sitt í úrvalsdeild. Kristrún Rut Antonsdóttir spilaði einnig nokkrar mínútur og átti ágætis færi þó svo að hún næði ekki að notfæra sér þau.
Boltameðferð Snæfellinganna var alls ekki nægilega góð og töpuðu þeir 34 boltum.
Hamarsstúlkur töpuðu 19.
Atkvæðamest hjá Hamri var Julia Demirer sem var að vanda með sína tvennu, en hún skoraði 17 stig og tók 13 fráköst. Næst á eftir henni kom Fanney Lind Guðmundsdóttir með 13 stig og 5 fráköst. Hafrún Hálfdánardóttir og íris Ásgeirsdóttir voru svo með 12 stig.
Lítið sást til Koren Schram í bikarleiknum á móti Keflavík og einnig í þessum leik og var hún einungis með 6 stig.
Hjá Snæfelli var það Gunnhildur Gunnarsdóttir sem var eini leikmaðurinn með almennilegu lífi og setti hún 18 stig, var með 6 stoðsendingar og fiskaði 6 villur. Unnur Lára Ásgeirsdóttir var svo með 10 stig og 10 fráköst.
Pistill: Jakob Fannar Hansen



