spot_img
HomeFréttirGrindavík vann í spennuleik fyrir norðan

Grindavík vann í spennuleik fyrir norðan

 
Þórsarar töpuðu naumlega gegn Grindvíkingum, 57-59 á heimavelli í 1. deild kvenna um helgina. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en gestirnir frá Grindavík voru sterkari á lokasekúndunum og lönduðu tveggja stiga sigri, 57-59.
Gestirnir frá Grindavík byrjuðu betur en heimamenn og náðu fljótt fjögurra stiga forskot, 4-8. Heimamenn voru töluverðan tíma í gang. Heimamenn voru ekki að taka nógu góð skot og þar með var hittnin ekkert sérstök. Gestirnir leiddu því leikinn eftir annan leikhluta með fjórum stigum, 9-13. Grindvíkingar héldu áfram á sömu braut en þær leiddu þó aldrei leikinn með meira en 1 – 4 stiga forskot. Heimamenn náðu þó að laga aðeins stöðuna fyrir leikhlé. Gestirnir leiddu þó leikinn með tveimur stigum er liðin gengu til búningsklefa, 20-22.
 
Gestirnir byrjuðu síðari hálfleik betur en heimamenn. Fátt virtist ganga upp hjá Þórsurum í sókninni og þar að auki stígu þær gestina ekki nógu vel út, sem hirtu oft á tíðum fráköst full auðveldlega. Gestirnir náðu þó aldrei að skilja sig frá heimamönnum og forskotið var aldrei meir en 1-4 stig. Þórsarar komust þó loksins yfir, 36-34 þegar 2 mínútur og 40 sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta. Þórsarar náðu síðan fjögurra stiga forskoti, 42-38 þegar Erna Rún skoraði flautukörfu með laglegu sniðskoti og um leið var brotið á henni. Erna setti niður vítaskotið og staðan var því 42-38 fyrir heimamenn þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.
 
Þórsarar byrjuðu fjórða leikhlutann mun betur en hina þrjá á undan. Þórsarar náðu fimm stiga forskoti, 49 – 45 og virtust ætla að klára leikinn. Grindvíkingar gáfust þó ekki upp og jöfnuðu leikinn á ný og svaka lokamínútur voru framundan. Þegar 35 sekúndur voru eftir af leiknum setti Linda Hreiðarsdóttir niður þrist og kom heimamönnum yfir, 57-56. Grindvíkingar voru ekki að baki dottnar og strax sókninni eftir náðu gestirnir einnig að setja þrist niður þegar 8,7 sekúndur voru eftir og gestirnir því komnir með tveggja stiga forskot. Heimamenn fengu síðan tækifæri á lokasekúndunni að tryggja sér sigurinn en niður vildi boltinn ekki og gestirnir fögnuðu því tveggja stiga sigri, 57-59.
 
Texti: Sölmundur Karl Pálsson
Ljósmynd/ Úr safni: Grindavík b í bikarleik gegn Njarðvík fyrr á leiktíðinni.
Fréttir
- Auglýsing -