Keflvíkingar urðu í kvöld fyrstir til að hafa sigur á KR í Iceland Express deild kvenna en Keflvíkingar gerðu góða ferð í Vesturbæinn og lögðu gestgjafa sína 64-68. Karfan.is náði í skottið á Jóni Halldóri Eðvaldssyni þjálfara Keflavíkur sem var að vonum kátur með sigurinn og sagði Keflavíkurliðið ávallt leita leiða til þess að bæta sinn leik.
,,Þetta var bara frábært fyrir okkur, við vorum ekki að spila nægilega góða vörn í upphafi tímabils en það hefur lagast mikið núna og við erum líka aðeins að bæta hjá okkur sóknarleikinn og um leið erum við ávallt að leita leiða til að bæta okkar leik,“ sagði Jón Halldór en aðspurður um sterkari innkomu landsliðskonunnar Pálínu Gunnlaugsdóttur hafði Jón þetta að segja:
,,Bæði er það að Pálína verður sterkari með hverjum leik og svo leikmenn sem hafa til þessa ekki verið með stór hlutverk hjá okkur undanfarin ár eru að stíga upp núna. Annars snýst þetta bara um það hjá okkur að við erum lið, framan af tímabili var þetta meira einstaklingsframtak en nú eru allir meðvitaðir um sín hlutverk,“ sagði Jón en Keflvíkingar mega ekki gleyma sér í fögnuðinum enda aðeins einum leik frá bikarúrslitum í Laugardalshöll.
,,Já, það er Fjölnir á föstudag og þær eru sýnd veiði en ekki gefin. Við erum að mæta liði sem er taplaust í 1. deildinni. Vissulega er ætlast til þess að við vinnum leikinn en við vinnum ekki neitt ef við mætum ekki einbeittar til leiks,“ sagði Jón um komandi bikarleik.
Eftir deildarsigur Keflavíkur á KR í kvöld og tap hjá Hamri í Hveragerði tókst Keflavík að jafna Hamar að stigum og hafa nú bæði lið 18 stig. Grindavík lagði Hamar og saxaði því forskot KR í deildinni niður í 6 stig. KR er á toppnum með 28 stig en Grindavík hefur 22 stig í 2. sæti.
Ljósmynd/ Jón Halldór messar yfir Keflavíkurkonum í DHL-Höllinni í kvöld.



