spot_img
HomeFréttirPetrúnella datt í gírinn gegn Hamri

Petrúnella datt í gírinn gegn Hamri

 
Í kvöld fór fram leikur Grindavíkur og Hamars í Röstinni, Grindavík, og var hann fyrsti leikur liðanna í uppskiptri deild. Fyrir leikinn var Grindavík í öðru sæti með 20 stig en Hamar í því þriðja með 18 stig. Því var ljóst leikurinn í kvöld yrði hörkuleikur.
Hamarstúlkur byrjuðu leikinn vel og spiluðu pressuvörn sem Grindvíkingar áttu í smá vandræðum með. Það skilaði sér í 9 stiga forskoti um miðjan leikhlutann í stöðunni 2-11. Þegar tæpar 4 mínútur höfðu liðið frá fyrstu og einu körfu Grindavíkur tókst Joanna Skiba að minnka muninn í 5-11. Við það virtust heimastúlkur hrökkva aðeins í gang og náðu að halda í við Hamarsstúlkur út leikhlutann sem endaði í stöðunni 12-18, Hamri í vil.
 
Grindavíkurstúlkur virtust aðeins hressari í 2. leikhluta og náðu að jafna leikinn eftir rúmar 3 mínútur, 20-20. Á næstu mínútum skiptust liðin á að leiða og var leikurinn jafn og hraður það sem eftir var af fyrri hálfleik. Mest náðu Grindvíkingar 5 stiga forystu í stöðunni 35-30, en Koren Schram minnkaði muninn í 35-33 áður en fyrri hálfleik lauk.
 
Hamarstúlkur jöfnuðu leikinn 35-35, snemma í seinni hálfleik með vítaskotum frá Juliu Demirer en þá hrukku heimastúlkur í gang og á þremur mínútum náðu þær 11 stiga forskoti, 48-37. Þá tók Hamar leikhlé sem skilaði sér í því að liðið spilaði ákveðnari vörn og munurinn minnkaði jafnt og þétt þangað til 2 mínútur voru eftir og munurinn var aðeins 1 stig, 53-52. Með tveimur mikilvægum 3-stiga körfum frá Petrúnellu Skúladóttur náði Grindavík að auka forystuna aftur og leikhlutanum lauk í stöðunni 61-53.
 
Petrúnella átti tvær 3-stiga körfur í viðbót í byrjun 4. leikhluta en þess má geta að hún hitti úr 5 af 6 3-stiga skotum sínum í leiknum og var því með 83% nýtingu. Grindavík náði mest að leiða með 16 stigum í stöðunni 71-55. Þá gáfu Hamarsstúlkur í og náðu að saxa aðeins á forskotið og minnkuðu það í 7 stig með tveimur 3-stiga körfum frá Koren Schram, 76-69. Þær komust þó ekki nær en það og leikurinn endaði í 11 stiga sigri Grindavíkur 85-74.
 
Atkvæðamestar í liði Grindavíkur voru Michele DeVault, 24 stig og 6 stoðsendingar, Petrúnella Skúladóttir, 21 stig og 7 fráköst, og Helga Hallgrímsdóttir sem var með 15 fráköst og 6 stig.
 
Atkvæðamestar í liði Hamars voru Koren Schram, 21 stig og 8 fráköst, Julia Demirer, 17 stig og 14 fráköst, og Sigrún Ámundadóttir, 12 stig og 9 fráköst.
 
 
Texti: Sara Sigurðardóttir
Ljósmynd/ Úr safni
Fréttir
- Auglýsing -