Þrír leikir fara fram í kvöld þegar fimmtánda umferðin í Iceland Express deild karla rúllar af stað. Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15 en viðureign Snæfells og Keflavíkur verður sýnd í beinni netútsendingu hjá www.sporttv.is
Snæfell tekur á móti Keflavík í Stykkishólmi en liðin mætast svo í undanúrslitum Subwaybikarsins næstkomandi sunnudag en þá ræðst hvort liðið komist í Laugardalshöll og spili til bikarúrslita við annaðhvort Grindavík eða ÍR. Bæði Keflavík og Snæfell eru í fantaformi um þessar mundir. Hólmarar hafa unnið fimm heimaleiki í röð en eru með þrjá sigra í röð í deildinni. Keflvíkingar eru ekki síður heitir og hafa unnið fjóra leiki í röð og þrjá útileiki í röð svo gera má ráð fyrir miklum slag í Stykkishólmi í kvöld. Keflavík hefur 22 stig í 2.-3. sæti deildarinnar en Snæfell er í 4. sæti með 20 stig.
Þá tekur Grindavík á móti KR í Röstinni í Grindavík en viðureignir þessara liða voru sannkallað augnakonfekt á síðustu leiktíð. Pavel Ermolinski leikur sinn fyrsta leik fyrir KR í kvöld en rætt var við Pavel í Fréttablaðinu í dag og má nálgast viðtalið við hann hér. KR trónir á toppi deildarinnar með 22 stig og hefur unnið síðustu fimm deildarleiki sína í röð. Grindvíkingar eru ekki langt undan þó þeir sitji í 6. sæti deildarinnar þá hafa þeir engu að síður 18 stig.
Þriðji leikurinn í Iceland Express deild karla í kvöld er svo viðureign ÍR og Breiðabliks í Íþróttahúsi Kennaraháskólans. Blikar töpuðu afar dýrmætum stigum í síðustu umferð er liðið lá heima gegn FSu og skömmu síðar sagði Hrafn Kristjánsson starfi sínu lausu sem þjálfari Blika. Sævaldur Bjarnason tók við liðinu og honum til aðstoðar verður Guðni Hafsteinsson en þeir stýra liðinu í fyrsta sinn í kvöld. ÍR-ingar eru í 8. sæti um þessar mundir með 10 stig og eru í síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina en liðin þar fyrir neðan eru ekki langt undan, Tindastóll með 8 stig, Fjölnir með 6 stig, Blikar með 4 stig og FSu á botninum með 2 stig.
Hægt er að tippa á alla þrjá leiki kvöldsins á www.lengjan.is



