spot_img
HomeFréttirSnæfell klifraði upp fyrir slaka Keflvíkinga

Snæfell klifraði upp fyrir slaka Keflvíkinga

 
Í íþróttahúsi Stykkishólms fóru hlutirnir varfærnislega af stað í leik Snæfells og Keflavíkur í Iceland express deild karla en voru liðin að skiptast á að skora og staðan var 14-14 eftir 5 mínútna leik. Gunnar Einars fór vel af stað fyrir gestina og var kominn með 12 stig en Hlynur var með 8 stig. Þegar staðan var 20-23 fyrir Keflavík tóku þeir góðan sprett og staðan varð fljótt 20-29. Keflavík leiddi 24-29 eftir fyrsta hluta þar sem Gunnar Einars hafði verið magnaður hjá þeim með 14 stig.
Jón Ólafur jafnaði 38-38 eftir 3 vítaskot þar sem Sverrir braut af sér. Snæfell hafði verið að narta í hælana á Keflavík og verið 2-4 stigum á eftir framan af öðrum leikhluta. Hlynur kom Snæfelli svo strax í 41-38 og leikurinn var í járnum. Gunnar Stefáns kom inn fyrir Keflavík og setti tvo þrista funheitur og reyndi að laga stöðu Keflvíkinga en þeir voru farnir að elta 3-6 stigum á eftir, seinni 5 mín annars hluta. Sean Burton var fagnað af heimamönnum þegar stórþristur kom og tvistur á eftir og var hann einkar hress og spilaði menn líka vel uppi.
 
Snæfell leiddi 54-50 í hálfleik.
 
Hjá Snæfelli var Hlynur Bærings með 17 stig og 8 fráköst. Sean Burton 16 stig og 5 stoðs. Jón Ólafur Mæjónes 14 stig. Hjá gestunum frá Keflavík var Gunnar Einars kominn með 16 stig. Sigurður Þorsteins með 11 stig og Hörður Axel var kominn með 8 stoðsendingar.
 
Keflvíkingar skoruðu ekkert í 4 mín í þriðja leikhluta en Snæfell nýttu sér það ekkert sérstaklega og voru að klaufast verulega sjálfir aðeins búnir að setja 4 stig á þeim tíma þegar Keflvík setti loks niður 7 stig í röð og staðan 58-57 fyrir Snæfell. Sean Burton setti niður þrjá þrista í röð fyrir Snæfell og snögghitnaði og kom Snæfelli í 73-63. Sigurður Þorsteins náði að blokka Sean þegar hann reyndi við fjórða þristinn og þrammaði Sigurður svo upp og setti tvö stig og staðan varð 73-65 fyrir Snæfell eftir þriðja hluta.
 
Snæfellingar höfðu alltaf í kringum 10 stiga forskot i fjórða hluta og voru oft að spila fína vörn og Keflvíkingar að sama skapi ekki að fá boltanna til að detta niður. Sigurður Þorvaldsson setti góðann þrist og kom Snæfelli í 92-77 og voru þeir mjög yfirvegaðir í sóknum sínum á meðan Keflavík var að tapa niður kraftinum í vörninni og kvörtuðu meira í dómurunum. Þegar Hlynur Bærings setti niður þrist, Emil strax í næstu sókn, Draelon Burns hjá Keflavík fór útaf með 5 villur líkt og Jón Ólafur hjá Snæfelli var orðið ljóst hverjir ætluðu sér stigin tvö úr leiknum. Þegar þetta gerðist voru 2 mínútur eftir og staðan 104-83 fyrir heimamenn og allur kraftur þeirra megin og Keflvíkingar gáfu eiginlega leikinn eftir það. Fyrri leik liðanna i Keflavík sigraði Keflavík með 14 stiga mun. Snæfell sigraði leikinn með 20 stigum 106-86 og lagaði innbyrðisstöðu liðanna um 6 stig.
 
Hjá Snæfelli var Hlynur einkar öflugur með 30 stig og 17 fráköst. Sean Burton kom sterkur í leikinn og setti 28 stig og gaf 9 stoðsendingar. Sigurður Þorvalds 21 stig og Jón Ólafur 18 stig og 8 fráköst. Hjá Keflavík var Sigurður Þorsteins með 21 stig eins og Hörður Axel en Gunnaar Einars hafði 16 stig. Draelon Burn var ekki sannfærandi í leiknum en með 12 stig. Þröstur var með 10 stig.
 
Guðjón Skúlason var að vonum óánægður eftir leikinn. ”Þetta var ekki það sem við lögðum upp með það var enginn mættur í þennan leik, við vorum lélegir en þeir voru góðir. Það skiptir engu máli hvar við spilum við eigum að mæta i leikina.” Aðspurðum um bikarleikinn milli liðanna. “Það verður farið yfir allt fyrir þann leik það er ekkert eitt sem þarf að fara yfir þetta var það lélegt hjá okkur.”
 
Ingi Þór var ánægður eftir klifrið upp deildina. “ Við erum gríðalega stoltir af sigrinum á sterkum Keflvíkingum en gerum okkur grein fyrir að við þurfum að halda okkur á jörðinni fyrir bikarleikinn gegn þeim. Við erum meðvitaðir um að við verðum að spila betur á sunnudaginn á þeirra heimavelli til að klára málið en við verðum mættir.”
 
 
Texti: Símon B. Hjaltalín
Fréttir
- Auglýsing -