Það voru gestirnir úr Kópavogi sem sýndu tennurnar í Kennó í kvöld og höfðu 14 stiga baráttusigur 86-100 í Iceland Express deild karla. Leikurinn var í járnum framan af og munaði aðeins einu stigi á liðunum í hálfleik, 44-45. Það voru hins vegar Blikar sem mættu ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og skoruðu fyrstu 13 stig leikhlutans. ÍR-ingar áttu þó svör við þessu og minnkuðu muninn aftur niður í 7 stig þegar flautað var til loka þriðja leikhluta. Aftur mættu gestirnir brjálaðir í upphafi fjórða leikhluta og skoruðu fyrstu 8 stigin. Eftir það komust heimamenn aldrei nógu nálægt Blikum til þess að sjá möguleikan á sigri og því fór sem fór og Blikar tóku stigin 2.
Stigahæstur í liði Breiðabliks var Jeremy Caldwell með 25 stig og 12 fráköst en næstir voru Daníel Guðmundsson með 24 stig og Jonathan Schmidt með 19 stig. Hjá ÍR var Micheal Jefferson stigahæstur með 26 stig en næstir voru Hreggviður Magnússon með 25 stig og Nemnja Sovic með 19 stig
Leikurinn byrjaði frekar rólega og liðin voru jöfn á öllum tölum. Þegar leikhlutinn var hálfnaður stóðu tölur 14-14. Blikar höfðu þá fengið nokkur tækfæri til þess að ná meira en tveggja stiga forskoti en uppskar lítið. Það var ekki fyrr en það leið undir lok leikhlutans að varnarleikur gestana fór að skila áætluðum árangri og þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta höfðu þeir yfir, 20-24.
Heimamenn hleyptu þeim þó ekki lengra en það en munurinn á liðunum varð ekki meira en 5 stig á fyrstu mínútum annars leikhluta. Þegar rúmlega þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum var hins vegar aftur orðið jafnt á öllum tölum, 29-29, og komu þar flest stig ÍR af vítalínunni eða 7 af fyrstu 9 stigum þeirra í leikhlutanum. Breiðablik átt virkilega góðan kafla rétt eftir miðbik leikhlutans og þegar fjórar mínútur voru eftir tók Gunnar Sverrisson, þjálfari ÍR, leikhlé, 31-37. Heimamenn voru hins vegar aldrei langt undan og þó að gestirnir fögnuðu hverri körfu svöruðu heimamenn um hæl. Þegar flautað var til hálfleiks munaði því aðeins einu stigi, 44-45.
Stigahæstur í hálfleik hjá Breiðablik var Jeremy Caldwell með 12 stig og 5 fráköst en næstir voru Hjalti Friðriksson með 9 stig og J. Schmidt með 8 stig. Hjá ÍR var Hreggviður Magnússon stigahæstur með 13 stig en næstir voru Michael Jefferson með 12 stig og Nemanja Sovic með 7 stig.
Breiðablik byrjaði seinni hálfleik mun betur en heimamenn sem áttu ekki svör við fyrstu 7 stigum gestana og þegar þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Gunnar Sverrisson leikhlé fyrir ÍR, 44-52. Þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður höfðu heimamenn ekki ennþá skorað og forskot Breiðabliks orðið 14 stig, 44-58. ÍR-ingar voru að láta dómgæsluna fara mikið í taugarnar á sér og ásjáanlega hafði það mikil áhrif á leik þeirra. Fyrstu stig heimamanna í leikhlutanum komu svo þegar þrjár og hálf mínúta var eftir þegar Hreggviður Magnússon lagði boltan ofaní. Eftir gott tiltal frá þjálfara sínum þegar Daníel Guðmundsson var á vítalínunni fyrir Breiðablik eftir tæknivillu mættu heimamenn aftur til leiks og minnkuðu muninn niður í 4 stig með 16 stigum gegn 10 stigum gestana á seinustu þremur mínútum leikhlutans. Það var hins vegar Daníel sem átti seinasta orðið fyrir Breiðablik í þriðja leikhluta með glæsilegri þriggja stiga flautukörfu, 63-70.
Aftur voru það gestirnir sem mættu tilbúnir til leiks og skoruðu fyrstu 8 stig fjórða leikhluta þangað til Nemanja Sovic svaraði frá þriggja stiga línunni. Þegar þrjár mínútur voru liðnar af lokaleikhlutanum höfðu gestirnir 14 stiga forskot, 66-81, og útlitið ekki svo slæmt fyrir Breiðablik. Þegar fjórar mínútur voru eftir var þetta forskot komið upp í 16 stig, 88-72. Um leið og ÍR sýndi fram að þeir gætu minnkað eitthvað muninn tók Daníel nokkur Guðmundsson til sinna ráða og setti niður þriggja stiga körfu við mikinn fögnuð Blika í húsinu. Breiðablik hafði á endanum nokkuð öruggan 14 stiga sigur, 86-100.
Sævaldur Bjarnason var ánægður í leikslok eftir sigur í sínum fyrsta leik sem meistaraflokksþjálfari í úrvalsdeild þegar Breiðablik vann góðan útisigur á ÍR, 100-86. Sævaldur vildi meina að baráttan og krafturinn í sínum mönnum hefði skilað þessum stigum í hús en varnarleikur gestana fór oft illa með ÍR-inga sem létu gestina fara mikið í taugarnar á sér. “ Menn mættu jákvæðir í þennan leik og það er eitthvað sem við höfum verið að vinna með. Þetta er körfubolti, menn eiga að hafa gaman af þessu.” Sævaldur vildi ekki meina að hann hefði ekki sett sér neitt sérstakt markmið þessa mánuði sem hann stjórnaði liðinu nema að fá liðið til að spila þann körfubolta sem hann vissi að það gæti. Hann vildi koma því á framfæri að hann væri gríðarlega ánægður með það hvernig liðið hefði spilað í kvöld.
Texti: Gísli Ólafsson



