spot_img
HomeFréttirIsom funheitur í fyrsta leik með Stólunum

Isom funheitur í fyrsta leik með Stólunum

 
Tindastóll og Hamar tókust á í kvöld í Síkinu á Sauðárkróki. Bæði lið þurftu nauðsynlega á stigunum að halda, sérstaklega þó Stólarnir sem gengið hefur illa undanfarið. Heimamenn tefldu fram tveimur nýjum leikmönnum, þeim Cedric Isom og Donatas Visockis. Þeir byrjuðu báðir ásamt Axel, Helgi Frey og Svavari hjá Tindastóli. Gestirnir byrjuðu með Marvin, Ragnar, Svavar, Andre og Odd.
Marvin skoraði fyrstu tvö stig leiksins, en síðan komu tíu stig í röð frá Stólunum. Isom byrjaði af krafti, en gekk illa að koma boltanum í gegnum hringinn. Eftir fimm mínútur var staðan 10 – 4. Isom fór að hitna þegar leið á leikhlutann og skoraði tíu stig það sem eftir lifði hans. Krafturinn í Tindastólsliðinu virtist koma Hamarsmönnum á óvart og réðu þeir lítið við hann fyrsta fjórðunginn. Staðan að honum loknum var 24 – 13 og Isom kominn með 14 stig. Hinum megin var Marvin sprækur og búinn að skora 8 stig. Leikur Tindastóls var töluvert hraðari með tilkomu Isoms og virtust þeir ætla að keyra yfir gestina.
 
Hamarsmenn virtust vakna í leikhléinu á milli leikhlutana því þeir komu miklu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta. Þeir skoruðu fyrstu 6 stig leikhlutans og náðu smátt og smátt að saxa niður forskotið. Þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var munurinn kominn niður í 4 stig í stöðunni 34 – 30. Þá tóku heimamenn smá rispu fram að hálfleik, en síðasta orðið átti Páll Helgason fyrir Hamar þegar hann skoraði þrist alveg á lokaflautunni. Staðan í hálfleik 45 – 37. Hjá Stólunum var Isom kominn með 23 stig og Svavar sem vaknaði í öðrum leikhlutanum var með 10 stig. Hjá Hamri var Marvin með 17 stig og Dabney með 7. Isom var að spila frábærlega í fyrri hálfleik og sjáust nokkur mögnuð tilþrif frá honum, bæði í sókn og vörn. Hamar sem virtist ekki vera mætt til leiks í fyrsta leikhlutanum tók sig vel á í þeim öðrum og ætluðu greinilega að selja sig dýrt.
 
Þeir héldu áfram að stríða heimamönnum í þriðja leikhlutanum og bilið minnkaði hægt en örugglega. Eftir sjö mínútna leik í síðari hálfleik var staðan 55 – 54. Þá sögðu Stólarnir hingað og ekki lengra og náðu að halda nokkurra stiga forskoti út leikhlutann. Fleiri leikmenn voru farnir að skila stigum fyrir Stólana, sem leiddu með 6 stigum í stöðunni 65 – 59.
 
Stólarnir héldu svipuðu forskoti framan af fjórða leikhluta, en um miðjan leikhlutann náði Hamar að minnka muninn í tvö stig í stöðunni 74 – 72 og spennan orðin mikil í Síkinu. Svavar setti þá niður þrist fyrir heimamenn og síðan fylgdi karfa frá Isom og rúmar fjórar mínútur eftir. Isom hafði á þessum tímapunkti skorað öll stig Tindastóls í leikhlutanum fyrir utan körfu Svavars. Hamarsmegin var það Marvin sem hélt uppteknum hætti og skoraði hverja körfuna á fætur annarri. Stólarnir komust í átta stiga forskot 85 – 76, þegar rúm mínúta var eftir og allt útlit fyrir heimasigur. Ágúst tók leikhlé fyrir Hamar og í kjölfarið komu tvær körfur frá Dabney og munurinn 5 stig. Isom skoraði þá úr tveimur vítum fyrir Stólana, en Dabney og Páll skoruðu tvær körfur í röð fyrir Hamar, en tíminn var orðinn of naumur og Isom innsiglaði sigurinn með því að hitta úr öðru vítinu af tveimur þegar örfáar sekúndur voru eftir. Hamar náði ekki að minnka muninn frekar og Stólarnir fögnuðu fyrsta sigrinum í deildinni frá því 17. desember. Lokastaðan 88 – 84.
 
Cedric Isom átti algjöran stjörnuleik í kvöld með 41 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og yfir 65% hittni úr tveggja og þriggja stiga skotum. Svavar var með 23 stig og hinn nýji maðurinn var með 12 fráköst og 3 stig. Hjá Hamri voru Marvin og Dabney yfirburðamenn, Marvin með 35 stig og 9 fráköst og á tímabili virtust hann og Isom vera einu mennirnir á vellinum. Dabney skilaði 22 stigum og réðu Stólarnir illa við hraða hans á köflum. Stóru mennirnir hjá Hamri voru kannski ekki að skila stórum tölum, en gerðu heimamönnum lífið leitt í teignum engu að síður.
 
Stigaskor Tindastóls: Isom 41, Svavar 23, Rikki 8, Axel 7 og Helgi Freyr, Helgi Rafn og Visockis 3 stig hver.
 
Hamar: Marvin 35, Dabney 22, Páll 8, Oddur 6, Ragnar 5, Svavar 4, Bjarni 2 og Viðar 2.
 
Dómarar leiksins voru Einar Þór Skarphéðinsson og Erlingur Snær Erlingsson og áttu þeir gott kvöld í dómgæslunni.
 
Áhorfendur 270.
Ljósmynd – www.tindastoll.is Isom fór á kostum í Síkinu
 
Texti: Jóhann Sigmarsson.
Fréttir
- Auglýsing -