Þórsarar unnu mikilvægan sigur í toppbaráttu 1. deildar kvenna þegar þær lögðu Stjörnuna að velli 48-41 í Síðuskóla í gærdag. Gestirnir frá Garðabæ byrjuðu þó betur og skoruðu ellefu fyrstu stig leiksins. Heimamenn sýndu þó mikinn karakter og með góðri vörn náðu Þórsarar að snúa taflinu sér í vil og lönduðu góðum 7 stiga sigri, 48-41.
Heimamenn virtust byrja frekar værukærar og gestirnir voru fljótir að nýta sér það í vil og náðu að skora fyrstu 11 stig leiksins. Það tók heimamenn smá tíma að átta sig á hlutunum en undir lok fjórðungsins náðu þær góðum 8-1 spretti og minnkuðu því forskot gestanna niður í sex stig,8-14 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn mættu grimmir til leiks í öðrum leikhluta og fóru að spila góða vörn á gestina. Smá saman náðu heimamenn að saxa á forskot gestanna og náðu síðan forystunni, 16-14. Gestirnir jöfnuðu sig þó á þessum hamagangi heimamanna með því að skora síðustu sjö stig fyrri hálfleiks og leiddu því leikinn með fimm stigum, 16-21 og þannig var staðan, er liðin gengu til búningsklefa.
Eitthvað hefur Baldur Ingi þjálfari Þórs sagt við stelpurnar sínar í hálfleik því þær komu virkilega grimmar til leiks í síðari hálfleik. Með sterkri vörn og góðri pressuvörn náðu Þórsarar að minnka forskot gestanna. Gestirnir áttu í miklu basli með vörn heimamanna. Stjörnukonur komust hvorki lönd né strönd gegn vörn heimamanna. Sterk vörn heimamanna lagði grunninn að því að heimamenn náðu aftur forystunni og leiddu leikinn er þriðja leikhluta lauk með þremur stigum, 29-26. Sama var upp á teningunum í fjórða og síðasta fjórðungnum. Gestirnir réðu ekkert við vörn heimamanna. Smá saman náðu heimamenn að byggja upp ágætis forskoti, náðu mest níu stiga forskoti, 35-26. Gestirnir reyndu hvað sem þær gátu til að minnka forskot heimamanna enn frekar en þær fundu fáar glufur á vörn Þórsara. Heimamenn náðu því að landa sjö stiga sigri, 48-41 og eru því enn í hörku baráttu um annað sætið.
Ljósmynd/ Rúnar Haukur Ingimarsson
Texti: Sölmundur Karl Pálsson



