spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Grindavík eða ÍR í Höllina?

Leikir dagsins: Grindavík eða ÍR í Höllina?

 
Í kvöld ræðst það hvort Grindavík eða ÍR mæti Snæfell í Laugardalshöll síðar í þessum mánuði í úrslitum Subwaybikarsins í karlaflokki. Snæfell tryggði sér farseðilinn í Höllina í gær með 64-90 yfirburðasigri á Keflavík í Toyotahöllinni í Reykjanesbæ.
Grindvíkingar eru á fínu róli þessa dagana eftir tvo góða sigra á Njarðvík og KR í deildinni en ÍR-ingar máttu þola ósigur gegn Blikum í síðustu umferð. Leikur Grindavíkur og ÍR hefst kl. 19:15 í Röstinni í Grindavík í kvöld og verður væntanlega í beinni netútsendingu á www.umfg.is  
 
Í Iceland Express deild karla mætast KR og Njarðvík sannkölluðum toppslag í Vesturbænum kl. 19:15 en þetta er annar leikurinn í sextándu umferð deildarinnar. Breiðablik og Tindastóll riðu á vaðið í gærkvöldi þar sem Blikar lönduðu sínum öðrum deilarsigri í röð og sínum fyrsta heimasigri þessa leiktíðina!
 
Njarðvíkingar hafa hikstað allverulega upp á síðkastið, töpuðu gegn Keflavík í bikarnum, svo heima gegn Grindavík í deildinni og nú síðast lágu þeir aftur á heimavelli og það gegn Fjölnismönnum sem léku án leikstjórnanda síns Ægis Þórs Steinarssonar. KR-ingar fengu einnig skell í síðustu umferð er þeir lágu gegn Grindavík í Röstinni þar sem Pavel Ermolinski lék sinn fyrsta deildarleik fyrir KR á þessu tímabili og sé tekið mið af frammistöðu landsliðsmannsins í sínum fyrsta leik getur leiðin aðeins legið upp á við. Leikur KR og Njarðvíkur í DHL-Höllinni hefst einnig kl. 19:15 og hann verður líkast til að finna í beinni vefútsendingu hjá KR TV á www.kr.is/karfa  
 
Í 2. deild karla mætast svo Álftanes og HK úti á Álftanesi og hefst leikurinn kl. 19:45. Tveir leikir eru svo í yngri flokkum í kvöld þegar Keflavík tekur á móti KR í unglingaflokki kvenna kl. 20:00 og kl. 21:15 mætast Haukar og Keflavík í unglingaflokki karla að Ásvöllum í Hafnarfirði.
 
Fréttir
- Auglýsing -