LA Lakers virðast vera fullfærir um að vinna körfuboltaleiki þó þeirra aðalstjarna, Kobe Bryant, sé fjarri góðu gamni sem og miðherjinn Andrew Bynum. Pau Gasol er maðurinn sem þeir leita til nú og í nótt leiddi hann Lakers til sigurs gegn Utah Jazz, sem hafði unnið níu leiki í röð fyrir þennan leik.
Gasol var með 22 stig, 19 fráköst og fimm varin skot, Lamar Odom var með 25 stig og 11 fráköst og Jordan Farmar bætti við 18 stigum.
Á meðan töpuðu Boston Celtics fyrir New Orleans Hornets, Orlando Magic unnu Chicago Bulls og loks má geta þess að NJ Nets töpuðu enn einum leiknum, nú á heimavelli gegn Milwaukee, fyrir framan rúmlega 1000 áhorfendur, en stórhríð hefur sett stórt strik í reikninginn á þessum slóðum undanfarið auk þess sem það er varla skemmtilegt að horfa upp á liðið sitt tapa hverjum leiknum á fætur öðrum. Nú hafa Nets aðeins unnið fjóra leiki af 52 það sem af er tímabili, en það er sama vinningshlutfall og Philadelphia 76ers voru með tímabilið 1972-73 á leið sinni að versta tímabili í sögu deildarinnar.
Úrslit næturinnar/Tölfræði:
Atlanta 76 Miami 94
Toronto 104 Philadelphia 93
Detroit 97 Sacramento 103
New Jersey 77 Milwaukee 97
New Orleans 93 Boston 85
Minnesota 92 Charlotte 93
Chicago 87 Orlando 107
Phoenix 101 Portland 108
Utah 81 LA Lakers 96
Golden State 132 LA Clippers 102



