Kanalausar Njarðvíkurkonur fengu skell að Ásvöllum í gærkvöldi þegar Haukar rúlluðu gestum sínum upp 81-40 í B-riðli Iceland Express deildar kvenna. Danski bakvörðurinn Kiki Jean Lund var atkvæðamest í liði Hauka með 17 stig og 5 stoðsendingar.
Sigurlaug Guðmundsdóttir var stigahæst í Njarðvíkurliðinu með 12 stig og 7 fráköst en Njarðvíkingar léku án miðherja síns Helgu Jónasdóttur sem er með rifinn liðþófa.
Þar sem Snæfell lagði Val í gær og Njarðvík tapaði gegn Haukum tókst Hólmurum að minnka forskot Njarðvíkinga niður í 4 stig. Njarðvík hefur 12 stig í 2. sæti riðilsins en Snæfell í því þriðja með 8 stig. Snæfell og Njarðvík mætast svo næsta laugardag þar sem Hólmarar geta með sigri minnkað bilið milli liðanna um 2 stig en 6 stig eru eftir í pottinum og ekki útilokað að Snæfell geti stolið sæti af Njarðvíkingum í úrslitakeppninni.



