spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Sextándu umferð lýkur í kvöld

Leikir dagsins: Sextándu umferð lýkur í kvöld

 
Í kvöld lýkur sextándu umferð í Iceland Express deild karla með fjórum leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Leikur Fjölnis og Snæfells verður í beinni netútsendingu á www.fjolnir.is og þá ætla Grindvíkingar að rífa upp sitt hafurtask og sýna beint á netinu frá leik sínum gegn Hamri sem fram fer í Hveragerði en leikurinn er sýndur á www.umfg.is  
Stjarnan tekur á móti ÍR í Ásgarði en Stjarnan er í 3. sæti deildarinnar með 22 stig á meðan ÍR-ingum hefur heldur fatast flugið að undanförnu og verma 8. sæti deildarinnar með 10 stig en liðið hefur nú tapað fimm deildarleikjum í röð og duttu út úr bikarnum gegn Grindavík fyrir skemmstu. Áföllin hafa einnig sótt stíft á ÍR þar sem landsliðsmaðurinn Hreggviður Magnússon missteig sig gegn Grindavík í bikarnum. Þá má búast við því að Ólafur Jónas Sigurðsson leiki sinn fyrsta leik fyrir Stjörnuna í kvöld en kappinn er kominn heim frá Danmörku og hefur þegar hafið æfingar með Garðbæingum.
 
Keflvíkingar taka á móti FSu í Toyotahöllinni í kvöld en Keflvíkingar hafa nýverið fengið tvo stóra skelli gegn Snæfell og vilja líkast til rétta sinn hlut. Selfyssingar eru sem fyrr á botni deildarinnar og nú fer hver að verða síðastur í þeim efnum að næla sér í stig til að forðast 1. deildina.
 
Grindvíkingar eru sennilega eitt heitasta lið landsins um þessar mundir enda eru þeir komnir í Höllina og hafa landað góðum deildarsigrum á Njarðvík og KR. Grindavík heimsækir Hamar í Hveragerði í kvöld en gulir eru 6. sæti deildarinnar með 20 stig en Hamarsmenn hafa 12 stig í 7. sæti deildarinnar og berjast hart fyrir sæti sínu í úrslitakeppninni. Svavar Páll Pálsson, fyrirliði Hamars, spilar tímamótaleik í kvöld. Þetta verður 200. úrvalsdeildarleikur Svavars fyrir félagið en hann hefur leikið með Hamri allar götur frá árinu 1999. Svavar Páll hefur verið með í 199 af 213 leikjum Hamars frá upphafi í úrvalsdeild karla.  Nánar um málið á Visir.is
Fjölnismenn taka á móti Snæfell í Grafarvogi í kvöld en bæði lið unnu góða sigra í síðustu umferð deildarinnar. Fjölnir lagði Njarðvík og Snæfell vann Keflavík. Fjölnir er ásamt Breiðablik í bullandi fallbaráttu en bæði lið hafa 8 stig en Blikar betur innbyrðis. Snæfell er sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 22 stig og geta með sigri í kvöld minnkað forystu KR á toppnum niður í 2 stig.
 
Staðan í Iceland Express deild karla

Hægt er að tippa á viðureignir Fjölnis og Snæfells og Hamars og Grindavíkur á www.lengjan.is

 
Í kvöld eru einnig tveir leikir í bikarkeppni yngri flokka. Hrunamenn fá Keflavík í heimsókn að Flúðum kl. 17:30 í 10. flokki stúlkna en í stúlknaflokki mætast Haukar og KR að Ásvöllum kl. 20:45.
 
Fréttir
- Auglýsing -