Þjálfarinn Ingi Þór Steinþórsson var að vonum lítt kátur með ósigur Snæfells í Grafarvogi í gærkvöldi. Snæfell á í bullandi toppbaráttu í Iceland Express deild karla en með sigrinum í gær tókst Fjölni að hífa sig upp af botninum og komast upp fyrir Breiðablik. Ingi Þór vildi ekki meina að komandi bikarúrslitaleikur gegn Grindavík væri að trufla sína menn.
,,Þetta var langt frá því sama Snæfellslið og var að vinna Keflavík hérna tvisvar í röð. Við sýndum okkar verstu hliðar og ég hef ekki séð svona frammistöðu í langan tíma og við létum Fjölni líta mjög vel út varnarlega séð. Við vorum okkar versti óvinur og lítið flæði í gangi, tókum ótímabær skot og enginn taktur í þessu hjá okkur,“ sagði Ingi Þór og bætti við að mönnum yrði lítt ágengt í sólóverkefnum.
,,Með Pálma aftur í hópnum og Martins sem nýjan leikmann fannst mér menn ætla að sýna sig og sanna og þá vantaði allan liðsbrag á þetta hjá okkur, bæði varnar- og sóknarlega séð. Góð lið geta unnið leiki þegar sólóverkefni fara í gang um víðan völl en Fjölnisliðið er of gott lið til þess að vinna þá á einhverju einstaklingsframtaki,“ sagði Ingi og kvað ósigurinn stóran í ljósi harðar samkeppni í deildinni.
,,Þetta var mjög stórt og svona leikir gera það að verkum að við getum ekkert leyft okkur að spila svona í fleiri leikjum. Við eigum FSu úti í næsta leik og þeir hafa verið að stíga vel upp á síðari hluta mótsins en ég veit að við svörum þessum Fjölnisleik þar,“ sagði Ingi en getur verið að staðreyndin um nálægan bikarúrslitaleik hafi verið að trufla?
,,Við erum ekkert farnir að hugsa um bikarleikinn, undirmeðvitundin stríðir samt mönnum og gegn Fjölni tel ég samt að það hafi ekki verið vandamálið heldur að okkur tókst ekki að leika sem lið og vorum skelfilegir varnarlega,“ sagði Ingi Þór sem situr nú ásamt Snæfell í 5. sæti deildarinnar.
Ef blásið yrði til úrslitakeppni í dag myndi hún líta svona út:
KR-ÍR
Keflavík-Hamar
Stjarnan-Njarðvík
Grindavík-Snæfell



