Semaj Inge stimplaði sig rækilega inn í leik Hauka þegar Hafnarfjarðarliðið mætti Skagamönnum á Ásvöllum. Haukar unnu stórsigur 131-79 og eru því komnir í annað sætið í deildinni á eftir KFÍ sem eru fjórum stigum á undan. ÍA er í hörku botnbaráttu við Ármann og eru með átta stig í sjöunda sæti.
Semaj Inge byrjaði af krafti og skoraði fyrstu 12 stig Hauka. Haukar byrjuðu vel og keyrðu upp muninn strax í upphafi og voru ákveðnir í því að hrista af sér slenið sem hefur leikið þá grátt í síðustu leikjum. En það varði ekki lengi. Síðustu fimm mínútur fyrsta leikhluta og fyrstu fimm mínútur annars voru vægast sagt slakar af beggja hálfu og gaf ekki góð fyrirheit um mikil tilþrif. Haukar leiddu samt sem áður eftir fyrsta leikhluta með 11 stigum, 28-17.
Skagamenn voru í við sterkari í byrjun annars leikhluta. Hægt og rólega minnkuðu þeir muninn og náðu honum mest niður í fimm stig. Um miðjan leikhlutann vöknuðu Haukar til lífsins og keyrðu muninn aftur upp og leiddu með 22 stigum í hálfleik, 63-41.
Seinni hálfleikur var algjör einstefna. Haukar voru í öllum boltum út um allt gólf og má segja að rauðir hafi nánast verið eina liðið inn á vellinum. Munurinn varð alltaf meiri og meiri og þegar þriðja leikhluta lauk voru Haukar komnir með 103 stig gegn 59 stigum Skagamanna og tók það smá stund fyrir fréttaritara að átta sig á því að heill leikhluti var eftir.
Fjórði leikhluti var formsatriði og leiknum í raun löngu lokið. Haukar unnu eins og fyrr segir, 52 stiga sigur, 131-79 og var Semaj Inge lang stigahæsti maður vallarins með 46 stig en auk þess tók hann 11 fráköst.
Næstur Semaj í stigaskori Hauka var Sævar I. Haraldsson með 12 stig en auk þess tók hann 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.
Hjá ÍA var Dagur Þórisson atkvæðamestur með 16 stig og 6 fráköst og Áskell Jónsson og Halldór Jónsson voru honum næstir með 15 stig hvor.
Mynd: [email protected]



