Þórsarar lögðu Ármann að velli, 72-75 í Síðuskóla í kvöld. Þórsarar voru alltaf skrefinu á undan gestunum allan leikinn en náðu þó aldrei að hrista gestina af sér. Þórsarar náðu að halda einbeitingunni lengur en gestirnir og náðu að landa þriggja stiga sigri, 75-72. Með sigrinum náðu Þórsarar að fjarlægast fallbaráttuna í bili.
Liðin byrjuðu þó leikinn nokkuð rólega, lítið skorað en jafnt var þó með liðunum framan af. Þórsarar náðu þó ágætis spretti um miðbik fyrsta fjórðungs og náðu fimm stiga forskoti, 11-6. Þórsarar voru ávallt skrefinu á undan gestunum og leiddu með sex stigum er fyrsta fjórðungi lauk, 22-16. Gestirnir brugðu á það ráð að skipta yfir í svæðisvörn í upphafi annars leikhluta, en það skilaði þeim litlu. Gestirnir áttu í mestu vandræðum með að stíga út þá Ella og Óðinn, en þeir virtust geta tekið sóknarfráköst að vild. Þórsarar spiluðu fína vörn og náðu hægt og bítandi 9 stiga forystu, 29-20 og virtust ætla að koma sér í þægilega stöðu. Gestirnir vöknuðu loks og náðu góðum spretti og minnkuðu munin niður í eitt stig, 34-33 er þrjár mínútur voru eftir af öðrum leikhluta. Þórsarar náðu að skora síðustu fimm stig fjórðungsins og leiddu því leikinn í hálfleik, 40-35.
Ármenningar mættu brjálaðir til leiks í síðari hálfleik og skoruðu sjö fyrstu stig fjórðungsins og voru skyndilega komnir með tveggja stiga forystu, 40-42. Þórsarar rönkuðu við sér og náðu forystunni á ný, 49-45. Lengi vel var jafnt á öllum tölum, en Þórsarar brutu óþarflega mikið á gestunum og mikið af stigum gestanna í fjórðungnum komu af vítalínunni. Þórsarar náðu þó enn og aftur góðum endaspretti og skoruðu fimm síðustu stig þriðja fjórðungs og leiddu því leikinn með fjórum stigum, 61-57 er fjórðungnum lauk. Þórsarar byrjuðu fjórða leikhluta vel og með fínni vörn náðu þeir átta stiga forskoti, 70-62 og virtust ætla að koma sér í góða stöðu fyrir loka mínúturnar. Gestirnir voru þó á öðru máli og komu sér hægt og bítandi aftur inn í leikinn. Þórsarar leiddu þó ávallt leikinn en það munaði þó aldrei meir en 2-5 stigum á liðunum. Lokamínúturnar voru spennandi, en bæði liðin nýttu ekki sóknir sínar sem skildi. Þórsarar héldu þó haus og náðu að innbyrða þriggja stiga sigur, 75-72.
Stigaskor Þórs: Óðinn Ásgeirsson 15 (18 fráköst), Elvar Sigurjónsson 13, Bjarni Árnason 13, Wesley Hsu 12, Páll Kristinsson 9, Bjarki Oddsson 7, Baldur Stefánsson 4, Björgvin Jóhannesson 2.
Stigaskor Ármanns: Daði Berg Grétarsson 17, Þorsteinn Húnfjörð 15, Geir Þorvaldsson 15, Helgi Hrafn Þorláksson 10, Halldór Kristmansson 8, Birkir Heimisson 5 og Hermann Maggyarson 2.
Umfjöllun/Sölmundur Karl Pálsson



