Íslandsmeistarar KR sitja sem fastast á toppi Iceland Express deildar karla eftir nauman 80-75 spennusigur á Fjölni í kvöld. Darri Hilmarsson steig vel upp í liði KR að þessu sinni og lauk leik með 22 stig en Christopher Smith gerði 28 stig hjá Fjölni og tók 9 fráköst. Pavel Ermolinski lét líka vel til sín taka í röndóttu með glæsta þrennu, 13 stig, 14 fráköst og 11 stoðsendingar. KR hefur nú 28 stig á toppnum en Fjölnir er áfram í seilingarfjarlægð frá úrslitakeppninni með 10 stig í 10. sæti.
Ekki leið á löngu í DHL-Höllinni í kvöld uns Fjölnismenn skiptu í svæðisvörn og héldu þeir sig við það varnarafbrigði út leikinn. Tómas Heiðar Tómasson kom sleipur inn af bekk Fjölnismanna undir loka fyrsta leikhluta og gerði síðustu stigin fyrir Fjölni sem leiddu 14-19 að leikhlutanum loknum. Fannar Ólafsson fékk snemma tvær villur í liði KR og lék aðeins í rúmar fimm mínútur í fyrri hálfleik en villuvandræðin áttu eftir að elta hann uppi í þeim síðari.
Skarphéðinn Ingason og Darri Hilmarsson komu með góða baráttu inn í lið heimamanna í öðrum leikhluta og gerðu heimamenn 13 stig gegn 6 frá Fjölni á fyrstu fjórum mínútum annars leikhluta. Á þessum tíma voru gestirnir lítt að þjónusta Smith og KR að sama skapi að tví- og jafnvel þrídekka hann. Rétt eins og Snæfellingar í síðustu umferð gerðu KR-ingar þau mistök að herða ekki tökin á Smith heldur gefa eftir og það veit ekki á gott gegn tvennutrölli deildarinnar (sem reyndar vantaði eitt frákast upp á tvennuna sína í kvöld).
Það voru svo gestirnir sem leiddu 35-37 eftir fyrri hálfleik þar sem Christopher Smith var kominn með 13 stig og 6 fráköst í liði Fjölnis en hjá KR var Tommy Johnson kominn með 7 stig.
Fyrstu níu stig KR í síðari hálfleik komu í þriggja stiga körfum þar sem Brynjar Þór Björnsson var að verki í tvígang og Finnur Atli Magnússson læddi inn einum. KR breytti því stöðunni fljótt í 44-39 en skömmu síðar jafnaði Ægir Þór Steinarsson metin fyrir Fjölni í 44-44. Gestirnir úr Grafarvogi ætluðu því ekki að missa Íslandsmeistarana fram úr sér.
Undir lok þriðja leikhluta héldu Ægir Þór og Smith í liði Fjölnis á varamannabekkinn og KR-ingar sættu lagi og gerðu 5 stig í röð. Þeir Ægir og Smith voru ekki lengi utan vallar og af miklu harðfylgi náðu Fjölnismenn forystunni á nýjan leik þegar Ingvaldur Magni Hafsteinsson fékk góða sendingu í teignum og lagði boltann spjaldið ofan í um leið og flautan gall og Fjölnir leiddi 56-57 fyrir síðustu 10 mínúturnar.
Christopher Smith var KR-ingum erfiður í kvöld og trekk í trekk setti hann niður stökkskot í teignum yfir miðherja heimamanna. Þegar líða tók á fjórða leikhluta fékk Smith minna og minna pláss og vörn KR þéttist til muna. Darri Hilmarsson barðist af krafti í liði KR og minnkaði muninn í 71-72 er hann skoraði og fékk villu að auki.
Lokaspretturinn var svo æsispennandi þar sem Tómas Heiðar Tómasson skoraði ótrúlega körfu þegar 49 sekúndur voru til leiksloka. Tómas sótti að körfu KR en var felldur og henti boltanum upp í loftið sem fór ofan í og karfan gild og villa að auki. Tómas setti niður vítið og staðan orðin 73-75 Fjölni í vil. Strax í næstu sókn eða 10 sekúndum síðar skoraði Pavel körfu og fékk villu að auki og kom hann KR í 76-75. Næstu tvær sóknir Fjölnismanna enduðu með slæmum skotum gegn sterkri vörn KR og svo fór á endanum að Darri Hilmarsson innsiglaði KR sigur á vítalínunni 80-75.
Fjölnismenn hafa heldur betur gyrt sig í brók frá fyrri hluta tímabilsins og stríða nú hverju toppliðinu á fætur öðru. Það er yfirlýst markmið í Grafarvogi að komast í úrslitakeppnina og er það ekki svo fjarlægur möguleiki í augnablikinu miðað við kraftinn í liðinu. Að sama skapi eru KR-ingar að berjast um deildarmeistaratitilinn og hafa 28 stig á toppnum. Ekki langt undan eru Keflvíkingar með 26 stig en þessi lið eiga m.a. eftir að mætast í DHL-Höllinni.
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Jóhann Gunnar Guðmundsson, a.k.a. Simmi og Jói. Dæmdu vel í kvöld.
Viðtöl við Darra Hilmarsson KR og Bárð Eyþórsson Fjölni
Jón Björn Ólafsson – [email protected]



