Þó Cleveland Cavaliers séu með besta vinningshlutfallið í NBA eru þeir ekki hræddir við að rugga bátnum og eru nær öruggir um að styrkja leikmannahóp sinn áður en skiptaglugginn lokar á fimmtudaginn. Helst vilja þeir fá til sín Amare Stoudemire frá Phoenix Suns og er þá talið að hann komi í skiptum fyrir Zydrunas Ilgauskas og J.J. Hickson. Þó er Danny Ferry, framkvæmdastjóri Cavs líka með auga á Antawn Jamison hjá Washington Wizards og Troy Murphy hjá Indiana Pacers.
Stoudemire hefur verið í miklu limbói hjá Phoenix Suns undanfarin misseri þar sem hann getur fengið sig lausan úr samningi sínum í lok leiktíðar og hefur hann verið orðaður við annað hvert lið í deildinni síðan í fyrra. Ekkert launungarmál er að Miami Heat er á höttunum á eftir honum sem og Philadelphia 76ers, en þau lið hafa ekki það sem til þarf til að heilla Robert Sarver, eiganda Phoenix, þ.e. stóra samninga sem eru að renna út og ungan efnilegan leikmann að auki.
Ilgauskas er með 11,4 milljónir dala á þessu síðasta ári samnings síns og er jafnvel talið að Suns muni kaupa hann út og sleppa honum svo. Þá gæti hann snúið aftur til Cleveland þar sem hann er einn vinsælasti leikmaður liðsins, bæði meðal stuðingsmanna og leikmanna, en hann og LeBron James eru miklir mátar.
Jafnan er talið að þessi skiptagluggi verði einn sá annríkasti í langan tíma þar sem lið eru að búa sig undir sumar þar sem að margir af bestu leikmönnum deildarinnar verða lausir og liðugir, t.d. James, Dwayne Wade og Chris Bosh, svo feitustu bitarnir séu taldir til.
Þegar hafa Dallas Mavericks fengið til sín hinn fjölhæfa Caron Butler í skiptum fyrir Josh Howard og er talið nær öruggt að Tyrus Thomas yfirgefi herbúðir Chicago Bulls og Tracy McGrady fari endanlega frá Houston Rockets.
Kirk Hinrich hjá Bulls gæti endað hjá LA Lakers í 3ja liða fléttu með Portland Trail Blazers, Andre Iguodala gæti verið á leið frá Philadelphia og loks hafa Boston Celtics fengið allnokkrar fyrirspurnir um Ray Allen, sem er samningslaus í lok leiktíðar og sem slíkur gulls ígildi.
Allt virðist því stefna í viðburðaríka daga og einhverjir ættu að fara að setja niður í töskur.
Mynd – Amare Stoudemire er mögulega á leið til Cleveland
Mynd – Amare Stoudemire er mögulega á leið til Cleveland



