Á bolludaginn heilaga tóku Grindvíkingar á móti Blikum í Iceland Express deild karla í Röstinni og unnu þeir leikinn örugglega 94-68. Leikurinn byrjaði jafn og spennandi en svo tóku Grindvíkingarnir yfirhöndina og leiddu út restina af leiknum.
Grindvíkingar eru búnir að vera á góðu róli undanfarið og unnið undanfarna 3 leiki í röð og var þetta sá fjórði í deildinni. Blikar aftur á móti eru í fallsæti þrátt fyrir að hafa unnið síðustu tvo leiki. En þrátt fyrir það eru fjögur lið fyrir ofan þá aðeins 2-4 stigum á undan.
Brenton Birningham var kominn aftur í lið Grindvíkinga eftir nokkura leikja fjarveru vegna meiðsla. Hann lék í 26.minútur og gerði 12 stig. Þorleifur Ólafsson var ekki með vegna veikinda.
Gestirnir úr Breiðablik komu ákveðnir og baráttuglaðir í fyrsta fjórðunginn. Þeir héldu sér við hlið heimamanna allan leikhlutann og komust yfir mest með 5 stigum. Voru að spila af skynsemi og dugði það til að halda út leikhlutann. Blikar leiddu fyrsta fjórðunginn með einu stigi 24-25.
Blikar náðu ekki að fylgja eftir líkt og í fyrri fjórðungunum. Heimamenn skiptu fljótlega yfir í svæði og virtist það vefjast fyrir gestunum og illa gekk þeim að koma knettinum ofaní. Þrátt fyrir það tekst þeim að bíta frá sér í lok leikhlutans og setur Daníel Guðmundsson þriggja stiga körfu og fær vítaskot þar að auki. Með því minnka gestirnir muninn fyrir hálfleik í 4 stig, 43-39.
Atkvæðamestir í fyrri hálfleik voru Darrel Flake fyrir heimamennina með 12 og 5 fráköst. Fyrir gestina var það Jeremy Caldwell með 10 stig og 11 fráköst.
Þriðji fjórðungur var sannkölluð sýning hjá heimamönnum en gekk ekki mikið hjá gestunum. Þeir byrja á því að taka 14-2 run og Páll Axel fór að hitna og skoraði 7 stig á einni og hálfri mínútu. Svo gerðist það á 27.mínútu að Guðlaugur Eyjólfsson leikmaður heimamanna tekur þriggja stiga skot sem geigar og ratar í hendur Ólafs Ólafsonar sem grípur boltann í loftinu treður boltanum yfir leikmann Blika, Jeremy Caldwell með tilþrifum. Grindvíkingar gjörsamlega söltuðu leikhlutann og unnu hann með 33 stigum gegn 14 stigum Blikanna. Leikhlutinn lauk í stöðunni 76-53 heimamönnum í vil.
Grindvíkingar héldu áfram að spila sama leik í fjórða leikhluta og var því ljóst að gestirnir ættu engann séns. Grindavík vann leikinn örugglega með 26 stigum og voru lokatölur 94-68.
Atkvæðamestir voru Páll Axel með 21 stig og 7 fráköst og Darrel Flake og Ólafur Ólafsson með sitthvor 18 stigin. Fyrir gestina var það Jeremy Caldwell með 21 stig og 21 frákast þar að auki.
Texti: Marteinn Guðbjartsson



