Flestir hafa eflaust tekið eftir því að Grindvíkingar hafa tekið upp beinar netútsendingar frá heimaleikjum sínum í Iceland Express deild karla og kvenna. Í gærkvöldi datt Grindavík TV í lukkupottinn þegar Ólafur Ólafsson hóf sig til flugs í leiknum gegn Breiðablik.
Guðlaugur Eyjólfsson setti þrist af stað sem skoppaði upp af körfuhringnum. Jeremy Caldwell grunlaus um aðsteðjandi hættu hugðist rífa niður varnarfrákastið fyrir Blika þegar Ólafur Ólafsson kemur aðvífandi, hrifsar til sín sóknarfrákastið með annarri hendi og treður með tilþrifum. Vafalítið ein af flottari troðslum tímabilsins og skorar þá líka hátt með tilliti til fyrri tímabila.



