ÍR ingar sem verið hafa í djúpum öldudal nú eftir áramót hafa sagt upp samningi við bandaríska leikmanninn Michael Jefferson. Þetta staðfesti Gunnar Sverrisson þjálfari liðsins í samtali við karfan.is nú fyrir stundu.
Michael kom til liðsins um áramót og hefur liðinu ekki tekist að sigra deildarleik með hann innanborðs og er í raun komið í bullandi fallhættu. Eins og Gunnar orðaði það þá þarf ekki mikið að útskýra brottvikningu hans, hann hafi ekki hjálpað liðinu mikið.
Jafnframt sagði Gunnar að verið væri að skoða aðra möguleika og vonandi yrði kominn nýr leikmaður fyrir næsta leik sem er þann 25. gegn Snæfell á útivelli.
Jefferson lék 6 leiki fyrir ÍR, skoraði 17,7 stig og gaf 5,2 stoðsendingar en segja má að skotnýting kappans hafi ekki verið margra dollara virði, 34,4% í tveggja stiga og 21,4% í þriggja en fyrir þá sem ekki muna má minna að Jefferson er bakvörður.
Mynd: Tomasz Kolodziejski



