Stjarnan mætti norður í land í gærkvöld og lék við Tindastól í frestuðum leik frá því á mánudag. Heimamenn komnir í harða fallbaráttu með tíu stig, en gestirnir með 24 stig og nálægt toppnum. Stólarnir byrjuðu með Axel, Svavar, Cedric, Helga Rafn og Donatas, en Stjarnan með Kjartan, Jovan, Djorde, Justin og Fannar Freyr í fyrstu fimm. Þeir byrjuðu af krafti og voru komnir yfir 0 – 5 eftir eina og hálfa mínútu.
Stólunum gekk illa að finna körfuna framan af leik á meðan Stjarnan jók forskot sitt jafnt og þétt. Eftir fimm mínútur var staðan orðin 5 – 13 og Karl tók leikhlé fyrir heimamenn. Það virkaði því sóknarleikurinn fór að batna og vörnin þéttist. Stólarnir minnkuðu muninn í eitt stig 14 – 15, en síðustu körfu leikhlutans átti Fannar Helgason fyrir gestina með þriggja stiga skoti og þeir leiddu með 4 að loknum fyrsta fjórðungnum. Eins og sést á stigaskorinu var hittnin ekkert til að hrópa húrra fyrir hjá báðum liðum þó bæði lið fengu ágætis sjénsa þá vildi boltinn oft á tíðum ekki fara ofan í.
Annar leikhluti byrjaði líkt og sá fyrsti með því að Stjarnan jók forskotið, en þegar langt var liðið á leikhlutann voru þeir komnir með níu stiga forskot í stöðunni 26 – 35 og rúm mínúta eftir. Þá skoraði Svavar þriggja stiga körfu og átti svo varið skot í næstu sókn Stjörnunar. Stólarnir nýttu svo síðustu sóknina vel með því að Donatas setti niður sniðskot og Stjarnan fór með fjögurra stiga forskot inn í hléið. Staðan 31 – 35 og bæði lið að spila sterkan varnarleik og með sama áframhaldi var ljóst að engin stigamet yrðu slegin í kvöld. Svavar var atkvæðamestur heimamanna með 10 stig, en Cedric Isom hafði ekki náð sér á strik sóknarlega, en var þó kominn með 5 stoðsendingar. Hinu megin var Jovan kominn með 9 stig og Djorde með 7.
Stólarnir hófu síðari hálfleik með því að jafna í 35 – 35. Stjarnan var ekki á því að láta forystuna af hendi og leiddu næstu mínútur með nokkrum stigum. Í stöðunni 42 – 46 náðu Stólarnir yfirhönd í leiknum og náðu að komast yfir í fyrsta sinn með þriggja stiga skoti frá Svavari í stöðunni 47 – 46. Síðustu mínútur þriðja leikhluta skiptust liðin á hafa forystuna, en Stólarnir leiddu með einu stigi þegar hann var flautaður af. Staðan 53 – 52 og greinilegt að spennandi lokamínútur voru í uppsiglingu.
Heimamenn skoruðu fyrstu þrjú stigin í fjórða leikhlutanum, en síðan fylgdu misheppnaðar sendingar sem Stjarnan nýtti sér til að komast yfir. Þegar fjórar og hálf mínúta var til leiksloka höfðu gestirnir komið sér upp sjö stiga forskoti. Staðan 59 – 66, en Stólarnir komnir með bónus á þessum tíma. Cedric skoraði næstu fjögur stig af línunni og munurinn þrjú stig. Fannar svaraði með tvist fyrir Stjörnuna og tvær mínútur eftir. Cedric skoraði síðan úr sniðskoti þegar ein og hálf var eftir. Stjarnan fór í sókn, en Djorde Pantelic hitti ekki og Stólarnir náðu frákastinu. Þeir fóru í sókn og þegar lítið var eftir á skotklukkunni renndi Cedric sér út í horn og náði þriggja stiga skoti sem fór rétta leið og jafnaði þar með leikinn, 68 – 68.
Fjörtíu sekúndur eftir og allt á suðupunkti. Stjarnan fór í sókn sem endaði með þriggja stiga skottilraun frá Jovan þegar skotklukkan var að renna út. Ekki vildi skotið ofan í og eftir mikinn barning í teignum virtist Donatas vera kominn með frákastið fyrir Tindastól, en síðan var greinilega slegið í hönd hans svo hann missti boltann án þess að nokkuð væri dæmt. Á endanum náði Fannar Helgason boltanum og náði skoti sem fór ofan í við mikinn fögnuð Stjörnumanna. Sex sekúndur eftir og Kalli tók leikhlé fyrir Stólana. Þeir tóku síðan boltann inn við miðju, en einhvern misskilningur varð hjá heimamönnum sem endaði með því að Helgi Rafn þurfti að taka erfitt þriggja stiga skot sem náði ekki á körfuna um leið og tíminn rann út. Einhverjir vildu fá villu, en ekkert var dæmt og Stjarnan fagnaði því sætum tveggja stiga sigri og náði því að hefna fyrir tapið í fyrri leik liðanna í vetur. Eftir sátu svekktir Tindastólsmenn sem höfðu allir sem einn barist vel í kvöld og lagt sig vel fram. Bestur heimamanna var Svavar með 22 stig. Hreinn átti mjög góða innkomu af bekknum með 7 stig og Donatas var með 9 stig. Cedric Isom var ekki að hitta vel í kvöld, en náði samt 15 stigum og 11 stoðsendingum. Hjá Stjörnunni var Djorde Pantelic stigahæstur með 22 stig og 11 fráköst og var heimamönnum erfiður bæði innan og utan teigs. Næstir komu Fannar með 16 stig og Jovan með 15. Justin Shouse náði sér ekki á strik, en hann og Cedric gættu hvors annars vel allan leikinn.
Stigaskor Tindastóls: Svavar 22, Cedric 15, Donatas 11, Hreinn 7, Axel 7, Helgi Rafn 4, Sveinbjörn 3 og Friðrik 1.
Stjarnan: Djorde 22, Fannar 16, Jovan 15, Justin 8, Kjartan 6 og Magnús 3.
Dómarar: Jón Guðmundsson og Georg Andersen, dæmdu vel lengst af, en misstu tökin aðeins í restina.
Áhorfendur: 250.
Karl Jónsson þjálfari Tindastóls var svekktur með úrslitin eftir leik:
"Þetta var gríðarlega sárt, það var greinilega brotið á Don þegar hann náði síðasta varnarfrákastinu og þar áttum við að fá tvö bónusskot sem hefðu getað klárað leikinn. Þess í stað fellur boltinn til þeirra í stuttu færi og þeir setja niður auðvelt skot. Ég set síðan upp allt of flókið dæmi fyrir síðustu sóknina okkar sem gerir það að verkum að við náum boltanum ekki í hendurnar á Cedric og því fór sem fór".
"Ég vil hins vegar hrósa strákunum fyrir frábæra baráttu og okkar besta varnarleik í vetur. Við höfum verið að vinna í nýjum varnaráherslum með nýjum mönnum og strákarnir börðust alveg gríðarlega vel og voru einbeittir í vörninni".
"Nú tekur hins vegar við 10 daga fáránlegt hlé á leikjaplaninu, ekki það fyrsta í vetur og það er alveg óþolandi að fá þessi löngu göt oft inn á tímabilinu. Það væri hægt að spila fjóra leiki í næstu umferð á fimmtudag og föstudag og aðeins fresta leikjum Grindavíkur og Snæfells
fram yfir helgi. Það er algjör óþarfi að láta alla deildina stoppa þó að það sé bikarúrslitaleikur og virkilega vont eftir svona stórt skref upp á við hjá okkur að fá þetta hlé, þetta bara verður að breytast til framtíðar litið."
Texti: Jóhann Sigmarsson.



