spot_img
HomeFréttirJamison til Cleveland

Jamison til Cleveland

Cleveland Cavaliers hafa fengið til sín framherjann Antawn Jamison frá Washington Wizards í fimm manna skiptum milli þriggja liða. Þetta ætti að styrkja Cavs umtalsvert þar sem Jamison er reyndur kraftframherji sem er sterkur í fráköstum og góð skytta. Cavs voru lengi að reyna að fá Amare Stoudemire frá Phoenix Suns, en Suns vildu fá meira en Cleveland var tilbúið að láta.
 
 
 Skiptin voru milli Cleveland, Washington og LA Clippers. Cleveland gaf miðherjann Zydrunas Ilgauskas, Bosníumanninn Emir Preldzic og valrétt sinn í fyrstu umferð nýliðavalsins í sumar til Washington. Í staðinn fengu þeir Jamison og leikstjórnandann Sebastian Telfair frá Clippers, sem fengu framherjann Drew Gooden frá Washington.
 
Almennt er talið að Ilgauskas, sem hefur leikið allan sinn feril með Cleveland og er einn af dáðustu mönnum í sögu félagsins, fái sig lausan frá samngi sínum, sem rennur annars út í sumar, og snúi aftur heim eftir mánuð.
 
Jamison er 33ja ára og á tvö ár eftir af samningi sínum. Hann er frábær sóknarmaður sem skorar 20 stig í leik og tekur þar að auki níu fráköst í leik. Þá er hann ágæt skytta af kraftframherja að vera og mun eflaust losa mikið um LeBron James og létta af honum ábyrgð á stigaskorun.
 
Þó að Cleveland sé með besta vinningshlutfall í deildinni og búnir að vinna 12 leiki í röð eru þeir engu að síður tilbúinir til að taka áhættu til að bæta sig enn frekar. Cleveland voru einnig með besta vinningshlutfallið í fyrra, en höfðu ekkert svar gegn Orlando Magic í úrslitum Austurdeildarinnar.
 
Ef þessi skipti ganga upp og skila Cleveland í úrslit NBA eða jafnvel titlinum sjálfum verður það nær örugglega til að sannfæra LeBron James um að vera áfram í herbúðum þeirra, en hann er samningslaus í sumar.
Fréttir
- Auglýsing -