spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Spennan magnast í 1. deild

Leikir dagsins: Spennan magnast í 1. deild

 
Í kvöld eru þrír leikir á dagskrá í 1. deild karla og hefjast þeir allir kl. 19:15. Fallbaráttan er í algleymingi þó Hrunamenn séu fallnir en spurningin er hverjir fari niður með þeim og hvernig raðist inn í úrslitakeppnina. Öll lið deildarinnar nema KFÍ og Þór Akureyri hafa leikið 14 deildarleiki en hin tvö hafa leikið 15 deildarleiki. Þá hafa Hrunamenn leikið 16 deildarleiki og eru eins og áður segir fallnir í 2. deild.
Leikir kvöldsins í 1. deild karla kl. 19:15:
 
Þór Akureyri-Skallagrímur
Þór Þorlákshöfn-Haukar
ÍA-Valur
 
Síðast þegar Þór Akureyri og Skallagrímur mættust höfðu Borgnesingar 103-95 sigur í leiknum. Þar sem Þórsarar eiga bara sex stig eftir í pottinum (3 leikir) þá verða þeir að vinna Skallagrím í kvöld með 9 stigum eða meira til að taka innbyrðisviðureignina. Það og að vinna tvo síðustu leiki sína og vonast til að Skallagrímur tapi rest. Það er eini möguleikinn fyrir Þór til þess að komast í úrslitakeppnina. Vinni Skallagrímur í kvöld er orðið ljóst að einvörðungu fimm efstu lið deildarinnar geti þá skipað úrslitakeppni 1. deildar í ár. Liðin mætast á Akureyri í kvöld.
 
Toppslagur verður í Höfninni þegar Þór Þorlákshöfn tekur á móti Haukum en Haukar eru sem stendur í 2. sæti deildarinnar með 20 stig rétt eins og Þór Þorlákshöfn sem er í 4. sæti deildarinnar en Haukar hafa betur innbyrðis. Þegar liðin mættust í fyrri deildarviðureigninni að Ásvöllum höfðu Haukar afgerandi sigur, 92-68. Þórsarar þyrftu því að vinna leik kvöldsins með 25 stiga mun eða meira til að eignast innbyrðis viðureignina.
 
Nýliðar ÍA taka svo á móti Val uppi á Skipaskaga í kvöld og nú fer hver að verða síðastur til þess að næla sér í stig. Skagamenn eru í bullandi fallbaráttu með 8 stig í 9. sæti deildarinnar en þeir eru ekki langt frá Hetti og Ármanni sem eru í næstu tveimur sætum fyrir ofan með 10 stig. Valsarar freista þess að mjaka sér ofar í deildinni en þeir eru í harðri samkeppni við Hauka, Skallagrím og Þór Þorlákshöfn. Valur er í 3. sæti deildarinnar með 20 stig og þó sé enn fræðilegur möguleiki hjá þessum liðum á því að verða deildarmeistarar þurfa Ísfirðingar ekki nema einn sigur til viðbótar til að gulltryggja farseðilinn upp í Iceland Express deildina.
 
Í 1. deild kvenna mætast Stjarnan og Grindavík b í Ásgarði kl. 20:00 og í 2. deild karla taka Sindramenn á móti Árborg kl. 20:00. Einn leikur fer svo fram í drengjaflokki í kvöld þegar Njarðvík tekur á móti ÍBV kl. 20:30 í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski
 
Fréttir
- Auglýsing -