Þá er röðin komin að Einari Árna Jóhannssyni að rýna í Subwaybikarúrslitin 2010. Einar Árni er yfirþjálfari yngri flokka í Njarðvík en stýrði Breiðablik á síðasta tímabili í Iceland Express deild karla. Við báðum Einar að deila sínum hugrenningum um bikarúrslitaleik Snæfells og Grindavíkur í karlaflokki með okkur og gerir hann ráð fyrir ógurlegri dramatík á morgun og að úrslitin ráðist ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins.
Hvernig leggst bikarúrslitaleikur Snæfells og Grindavíkur í þig?
Þessi leikur leggst rosalega vel í mig. Mér finnst þessi tvö lið hafa spilað best undanfarið ásamt KR og þessi lið eru áþekk að því leytinu til að þarna eru margir fanta varnarmenn, hrikalega traustir kallar á blokkinni og ef út í það farið þeir tveir langbestu inside"allaround" í Flake og Hlyn, og svo frábærar skyttur í liggur við öllum leikstöðum.
Hvað mun skipta mestu máli í þessum leik?
Varnarleikurinn númer eitt, tvö og þrjú. Það vantar ekki sóknarvopnin í þessi lið og bæði lið hafa gott jafnvægi í sínum leik. Þjálfararnir reyndir og hafa svosem verið í þessari stöðu áður. Heilsa leikmanna getur líka haft áhrif en ég veit að það hefur verið e-ð hnjask á báðum bæjum síðustu vikurnar.
Hvaða leikmenn gerir þú ráð fyrir að láti mikið á sér bera í leiknum?
Einn af styrkleikum beggja liða er að þarna eru margir sem geta stigið upp. Burton, Hlynur og Siggi munu allir spila stórt hlutverk, Hlynur er bestur í boltanum hérna heima í dag, en ég tel að vægi leikmanna eins og Nonna Mæju og Emils Þórs geti skipt sköpum þeirra megin – Nonni er einn erfiðasti sóknarmaðurinn í þessari deild að mínu mati.
Flake, Brenton og Páll Axel verða allir í stórum hlutverkum hinum megin en svo held ég að bræðurnir Ólafssynir séu í stórum rullum þegar kemur að uppgjöri þessa leiks hjá gulum og Arnar Freyr sömuleiðis þar sem leikstjórnunin þarf að vera í lagi í svona leik. Arnar er með mikla reynslu og þekkir ferlið til sigurs svo hans þáttur verður stór í leiknum. Þannig að ef ég dreg þessa langloku saman þá snýst þetta um hvorum megin breiddin mun skína skærar.
Hvernig munu Friðrik og Ingi Þór leggja upp leiki sinna liða?
Einfalda útgáfan hljóðar upp á öfluga vörn, fráköst og baráttu út í eitt. Sóknarmegin eru bæði lið með mikla ógn fyrir utan en þurfa að passa að halda góðu jafnvægi og fara mikið með sinn sóknarleik í gegnum Hlyn/Flake. Einhverjir myndu telja að hraðinn yrði vopn Grindavíkur og Snæfell myndi heldur vilja halda þessu í halfcourt bolta en Grindvíkingar fengu miklu meira jafnvægi í sinn leik með komu Flake og ég tel þá fyrir vikið fjölhæfari en oft áður.
Hvernig fer þetta svo?
Þegar stórt er spurt! Ég held að þetta verði ógurleg dramatík og ráðist á lokasekúndum. Þetta verður leikurinn sem var næst mesta dramatíkin í sögu bikarsins, á eftir ´99 þegar Njarðvík lagði Keflavík í framlengingu með ógleymanlegum hætti. Ég spái 87-86 en kúlan sýnir mér hvorki gult og blátt né hvítt og rautt svo hugsanlega verður bara framlengt og læti.



