Einn dómari mun dæma sinn fyrsta bikarúrslitaleik á morgun þegar Subwaybikarúrslitin fara fram í Laugardalshöll. Davíð Kr. Hreiðarsson dæmir sinn fyrsta leik þegar hann dæmir kvennaleik Hauka og Keflavíkur kl. 14:00 ásamt Sigmundi Má Herbertssyni.
Sigmundur hefur dæmt tvo bikarúrslitaleiki kvenna, árið 1997 og 1998 og er því að dæma sinn þriðja bikarúrslitaleik í kvennaflokki. Sigmundur hefur einnig dæmt fimm sinnum í bikarúrslitum karla og er því að dæma í Höllinni í bikarúrslitum KKÍ í áttunda sinn.
Dómarar í karlaviðureign Snæfells og Grindavíkur sem hefst kl. 16:00 eru þeir Kristinn Óskarsson og Rögnvaldur Hreiðarsson. Kristinn er að mæta í tíunda sinn í Höllina því hann er að dæma sinn áttunda bikarúrslitaleik í karlaflokki og árin 1991 og 2006 dæmdi hann í bikarúrslitum í kvennaflokki.
Rögnvaldur er að mæta í sjöunda sinn í Höllina en hann hefur áður dæmt tvo bikarúrslitaleiki í karlaflokki og fjóra í bikarúrslitum kvenna.
Guðni E. Guðmundsson verður eftirlitsdómari í fyrsta sinn á bikarúrslitaleik en því starfi gegnir hann á
karlaleiknum en á kvennaleiknum verður Pétur Hrafn Sigurðsson, fyrrum framkvæmdastjóri KKÍ, eftirlitsdómari. Pétur hefur fjórum sinnum áður verið eftirlitsdómari á bikarúrslitaleik og er sitjandi formaður dómaranefndar.




