spot_img
HomeFréttirLaku með 28 í Skallasigri gegn Þór

Laku með 28 í Skallasigri gegn Þór

 
Skallagrímur lagði Þórsara með níu stigum, 69 – 78 er liðin mættust í Síðuskóla í kvöld í 1. deild karla. Gestirnir frá Borganesi byrjuðu leikinn betur en þegar á leið fyrri hálfleikinn komust heimamenn inn í leikinn en jafnt var með liðunum í hálfleik, 36-36. Það má segja að 3. leikhluti hafi lagt grunninn að sigri gestanna, en þeir unnu þann fjórðung 10-23. Heimamenn náðu þó að klóra í bakkann í 4. leikhluta en því miður var það of seint fyrir heimamenn og því lönduðu gestirnir níu stiga sigri, 69-78.
Gestirnir frá Borganesi byrjuðu leikinn betur en heimamenn og náðu fljótt sex stiga forystu, 3-9. Heimamenn náðu þó loks áttum og minnkuðu munin niður í þrjú stig, 8-11. Fátt gekk upp hjá heimamönnum og smá saman náðu gestirnir að byggja upp forskot og leiddu leikinn með sex stigum, 14-20 er 1. leikhluta lauk. Þórsarar byrjuðu annan leikhluta af miklum krafti og náðu góðum 7-2 spretti og minnkuðu þar með forskot gestanna niður í eitt stig, 21-22. Eftir þennan sprett heimamanna skiptust liðin á að skora. Þórsarar náðu þó undir lok fjórðungsins að spila góða vörn og náðu fjögurra stiga forystu er hálf mínúta var eftir fyrri hálfleiks. Gestirnir náðu þó að skora síðustu fjögur stigin en Sigurður Þórarinson setti niður tveggja stiga stökkskot á lokasekúndunni og jafnaði þar með leikinn 36-36. Þannig var staðan er liðin gengu til búningsklefa.
 
Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og skoruðu fyrstu sjö stig leiksins og breyttu stöðunni úr 36-36 í 36-43. Fátt gekk upp hjá heimamönnum, sama hvað þeir reyndu vildi knötturinn ekki niður. Á meðan náðu gestirnir að halda haus og náðu að byggja upp 13 stiga forystu, 41-54 um miðbik fjórðungsins. Gestirnir héldu áfram sama dampi og þegar fjórðungnum lauk, leiddu gestirnir leikinn með 13 stigum, 46-59. Skallagrímur byrjaði fjórða leikhluta á sömu nótum og þeir enduðu þann þriðja. Smá saman byggðu þeir upp gott forskot og náðu 17 stiga forskoti, 50-67 um miðbik fjóðrðungsins. Silver Laku var heimamönnum erfiður og klikkaði vart skoti í fjórðungnum. Böðvar Kristjánsson þjálfari Þórs brá á það ráð að setja hinn unga Sindra Davíðsson til höfuðs Laku. Það herbragð virtist skila sér þar sem Laku átti í miklu basli með að komast framhjá Sindra. Þegar um þrjár mínútur voru eftir skiptu heimamenn yfir í svæðisvörn og smá saman fóru þeir að minnka munin hægt og bítandi niður. Er um 1:40 voru eftir höfðu Þórsarar minnkað munin niður í sjö stig, 66-73. Lengra komust þó heimamenn ekki og gestirnir lönduðu níu stiga sigri, 69-78.
 
Stigaskor Þórs: Óðinn Ásgeirsson 17, Bjarki Oddsson 15, Páll Kristinsson 11, Sigmundur Eiríksson 8, Baldur Már Stefánsson 8, Wesley Hsu 6, Bjarn K. Árnason 2 og Elvar Sigurjónsson 2.
 
Stigaskor Skallagríms: Silver Laku 28, Konrad Tota 15, Sigurður Þórarinsson 14, Hafþór Ingi Gunnarsson 9, Kristján Guðmundsson 7, Trausti Eiríksson 3 og Óðinn Guðmundsson 2
 
 
Texti: Sölmundur Karl Pálsson
Fréttir
- Auglýsing -