spot_img
HomeFréttirHreggviður: Ekkert slitið

Hreggviður: Ekkert slitið

 
ÍR-ingar segja farir sínar ekki sléttar í Iceland Express deild karla þessa leiktíðina enda hefur meiðslaplágan angrað þá töluvert. Landsliðsmaðurinn Hreggviður Magnússon er síðasti leikmaður ÍR til þess að lenda í skakkaföllum en hann meiddist á ökkla eftir uppkast í undanúrslitaviðureign Grindavíkur og ÍR í Subwaybikarnum.
,,Ég og sjúkraþjálfarinn óttuðumst að um slitin liðbönd í ökkla væri að ræða en eftir myndatökur kom í ljós að það hafði trosnað upp úr tveimur liðböndum á utanverðum ökklanum og bólga var í þeim báðum,“ sagði Hreggviður feginn því að ekkert hefði gefið sig en hann hefur ekkert spilað síðan í undanúrslitum bikarsins gegn Grindavík.
 
,,Ég hef verið í sjúkraþjálfun en ekkert getað æft með liðinu. Ég geri ekki ráð fyrir að vera kominn í lag fyrir leikinn gegn Snæfelli á fimmtudaginn, en markmiðið er að vera kominn í lag fyrir næsta leik þar á eftir, eða á móti FSU föstudaginn 5.mars,“ sagði Hreggviður og kvað það alltaf jafn fúlt að lenda í meiðslum og hvað þá í undanúrslitum bikarsins.
 
,,En það verður vonandi komið allt í lag núna á komandi dögum. Ég er spenntur fyrir því að komast aftur í hópinn og klára tímabilið á góðum nótum. Við ætlum okkur í úrslitakeppnina og leika okkar besta leik undir lok tímabilsins! En árið hefur verið okkur erfitt og því gaman að enda það á sterkum og jákvæðum nótum. Maður vonar það besta,“ sagði Hreggviður sem fyrir meiðslin var með 15,5 stig og 5,6 fráköst að meðaltali í leik. Hreggviðs er sárt saknað í herbúðum ÍR enda hefur liðið tapað síðustu sjö deildarleikjum sínum.
 
Ljósmynd/ Gísli Ólafsson: Hreggviður í leik með ÍR í Kennó gegn Tindastól.
 
Fréttir
- Auglýsing -