spot_img
HomeFréttirKR hampaði deildarbikarnum eftir tapleik

KR hampaði deildarbikarnum eftir tapleik

 
Deildarmeistaratitillinn fór á loft í DHL-Höllinni í kvöld þegar KR mátti þola sinn annan deildarósigur þetta tímabilið. Þá var þetta í annað sinn sem Hamar vinnur sigur í Vesturbænum en lokatölur í leik þessara liða í kvöld voru 69-72 Hamar í vil eftir spennandi lokasprett. Súrsæt bikarafhending aftraði þó ekki brosum á vörum leikmanna KR sem hafa unnið vel fyrir tigninni enda leikið afar þétt þetta tímabilið. Athyglisvert er þó að sjá að KR hefur tapað þremur leikjum í vetur og öllum á heimavelli. Hitt er þó að nú er ein umferð eftir í deildinni og KR verður ekki haggað af toppnum og mun sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Hamarskonur hófu leik í svæðisvörn í kvöld eins og þeim er tamt og pressuðu að auki sem gaf einn og einn bolta á meðan KR-ingar voru að komast inn í leikinn. Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir tók þó frumkvæðið fyrir deildarmeistarana og með tveimur þristum kom hún KR í 8-1. Hamar var ekki lengi að svara og komst yfir 13-14 þegar rúm mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. Íris Ásgeirsdóttir haltraði af velli skömmu síðar eftir slæma lendingu en það virtist ekki vera of slæmt þar sem hún kom inn á völlinn að nýju í öðrum leikhluta. Þegar 33 sekúndur voru eftir fékk Margrét Kara Sturludóttir sína þriðju villu hjá KR og Hamarskonur leiddu 17-22 eftir fínan endasprett á upphafsleikhlutanum.
 
Hamar hafði áfram frumkvæðið í öðrum leikhluta drifnar áfram af Fanneyju Lind og Juliu Demirer en Heiðrún Kristmundsdóttir kom spræk af KR bekknum og stýrði sóknarleik KR ágætlega. Það var þó Hamar sem leiddi í hálfleik 33-38 þar sem Guðrún Gróa var komin með 14 stig í liði KR en Julia Demirer 12 hjá Hamri og ekki langt þar undan var Fanney Lind með 12 stig.
 
Í þriðja leikhluta voru það KR-ingar sem mættu grimmir til leiks og náðu fljótt forystunni 45-44 þegar Signý Hermannsdóttir reif niður sóknarfrákast og skoraði strax í kjölfarið. Síðustu mínúturnar í þriðja leikhluta einkenndust af baráttu og nokkrum klaufaskap en KR vörnin var fín og staðan því 55-51 fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem KR vann þriðja leikhluta 22-13.
 
Snemma í fjórða leikhluta fékk Margrét Kara Sturludóttir sína fimmtu villu og varð frá að víkja en nokkru á undan lék Hildur Sigurðardóttir sínar fyrstu mínútur í leiknum en hún hvíldi í kvöld allan fyrri hálfleikinn.
 
Sigrún Ámundadóttir kveikti svo neistann hjá Hamri er hún jafnaði metin í 66-66 með þriggja stiga körfu þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þær Julia Demirer og Koren Schram áttu líka fínar rispur á lokasprettinum og svæðisvörn Hamars gerði KR erfitt um vik.
 
Þegar 13 sekúndur voru til leikslokva var staðan 69-72 Hamri í vil og KR-ingar héldu í sókn. Hildur Sigurðardóttir brunaði upp völlinn á hægri kanti og ætlaði að senda boltann en Hamarskonur komust inn í sendinguna og leiktíminn rann út og gestirnir úr Hveragerði fögnuðu því sínum öðrum sigri í DHL-Höllinni í vetur.
 
Julia Demirer átti stórleik í liði Hamars í kvöld með 26 stig, 15 fráköst og 10 fiskaðar villur. Myndarleg þrenna þarna á ferðinni en þær Fanney Lind Guðmundsdóttir (10 stig) og Kristrún Sigurjónsdóttir (14 stig) áttu líka góðar rispur. Í heildina var Koren Schram ekki að sýna sitt rétta andlit en vó þungt á lokasprettinum og lauk leik með 5 stig.
 
Hjá KR var Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir með 20 stig og henni næst voru Signý Hermannsdóttir og Unnur Tara Jónsdóttir báðar með 11 stig. Signý var auk þess með 11 fráköst og 5 varin skot.
 
Dómarar leiksins: Sigmundur Már Herbertsson og Kristinn Óskarsson.
 
Fréttir
- Auglýsing -