Subwaybikarmeistarar Hauka tóku á móti Snæfell í Iceland Express deild kvenna í gærkvöldi þar sem lokatölur urðu 71-52 Haukum í vil. Heather Ezell átti myndarleik í liði Hauka en þessi öflugi bandaríski leikmaður gerði 39 stig, tók 10 fráköst, stal 5 boltum og gaf 4 stoðsendingar.
Sherell Hobbs var stigahæst í liði Snæfells með 27 stig, 13 fráköst og 4 stolna bolta. Haukar eru öruggir í efsta sæti B-riðils og munu því leika í fyrstu umferð úrslitakeppninnar gegn Keflavík, Grindavík eða Hamri, allt eftir því hvernig síðasta umferðin fer. Það eru svo Njarðvík og Snæfell sem slást um síðasta sætið í úrslitakeppninni en í augnablikinu hefur Snæfell betur innbyrðis og kemst í úrslitakeppnina ef Njarðvík tapar fyrir Haukum í síðustu umferð deildarinnar og Snæfell vinnur Val í Vodafonehöllinni.



